Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, var kosinn nýr formaður Starfsgreinasambands Íslands á þingi sambandsins á Akureyri í síðustu viku. Ásamt Vilhjálmi var Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags, í framboði.

Vilhjálmur Birgisson hlaut sjötíu atkvæði (53,85%) og Þórarinn G. Sverrisson sextíu atkvæði (46,15%). Alls greiddu 130 manns atkvæði í formannskjörinu. Vilhjálmur tekur við formennsku af Birni Snæbjörnssyni, formanni Einingar-Iðju, en Björn hefur gegnt formennsku SGS undanfarin tólf ár og er honum þakkað kærlega fyrir störf sín fyrir sambandið.

Nýr varaformaður SGS var kjörin Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, en hún tekur við af Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, formanni AFLs Starfsgreinafélags. Hjördísi eru færðar kærar þakkir fyrir sín störf sem varaformaður sambandsins.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nýja og fráfarandi formenn og varaformenn SGS. Talið frá vinstri: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, Guðbjörg Kristmundsdóttir, Vilhjálmur Birgisson og Björn Snæbjörnsson.