Lög Verkalýðsfélags Suðurlands

I. Kafli

Nafn, starfssvæði og tilgangur

1. gr.

Félagið heitir Verkalýðsfélag Suðurlands. Starfssvæði þess er lögsagnarumdæmi Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu .Heimili félagsins og varnarþing er á Hellu . Félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands, sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands og hlítir skilyrðum laga þess sbr. 13. gr. laga ASÍ.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:

Að sameina allt verkafólk, sem starfar á svæði félagsins, um hagsmunamál sín. Að efla og styðja hag félagsmanna og menningu á þann hátt sem kostur er með því að ákveða vinnutíma, kaupgjald, vinnuskilmála, tryggja öryggi við vinnu, vinna að aukinni og bættri félagsmála- og heilbrigðislöggjöf og vinna að hagsmunamálum félagsmanna á allan þann hátt sem orðið getur til framdráttar menntun og menningu og hagsmunamálum verkafólks í starfi og tómstundum.

Að hafa nána samvinnu við annað verkafólk og hagsmunasamtök þess.

Að skipuleggja innan sinna vébanda allt það verkafólk sem starfar á félagssvæðinu og á samningssviði þess og hefur sér til lífsframfæris vinnu í eftirtöldum starfsgreinum og öðrum hliðstæðum starfsgreinum sem skapast kunna:

a) Við fermingu og affermingu skipa og hverskonar annarra flutningatækja, svo og móttöku og affermingu farms.

b) Við húsbyggingar, steypuframleiðslu og efnisflutninga og vegna hverskonar bygginga- og mannvirkjagerð.

c) Við hafnargerð, vegagerð, jarðvinnu hverskonar, landbúnaðarstörf og efnisflutninga er tengjast áðurnefndum starfsgreinum.

d) Í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, við hverskonar störf í samfélagsþjónustu, íþróttir, íþróttamannvirki, tómstundaiðkun og á sviði félags-, heilbrigðismála og ummönnunarstarfa. Við sorphirðu og hreinsun hverskonar úrgangsefna.

e) Við ræstinga- og hreingerningastörf . Í þvottahúsum og efnalaugum.

f) Störf við mötuneyti og hverskonar vinnslu matvæla. Matvælaiðnað, fiskvinnslu og fiskeldi.

g) Í veitinga- og gistihúsum og skyld störf á þjónustusviði ferðamála.

h) Í iðnaði svo sem við járnsmíði, skipasmíði, blikksmíði (tunnugerð), garðyrkju, byggingar- og þungaiðnaði.

i) Við móttöku og afhendingu vara, þar með taldir bifreiðastjórar vörubifreiða og hópferðabifreiðastjórar.

j) Við olíu-, bensín-, smur-,bón- og ryðvarnarstöðvar og hjólbarðaverkstæði.

k) Við stjórn hverskyns vörubifreiða í þjónustu annarra og minni tækja og stærri vinnuvéla, svo sem ýtum, vélskóflum, vélkrönum og byggingakrönum.

l) Við landbúnað og vinnslu og sölu sjávar- og landbúnaðarafurða.

m) Við orkufrekan iðnað, jarðgangagerð, virkjanir, og aðrar stórframkvæmdir og hliðstæðar starfsgreinar.

n) Við orkuver og stóriðju og hverskonar orkufrekan iðnað.

o) Við varðstörf, öryggisvörslu og fjármunaflutninga. Við lager- og afgreiðslustörf. Við sendilstörf, póstþjónustu og störf á sviði síma, tölvuvinnslu og fjarskipta.

p) Við hverskonar önnur framleiðslu-, þjónustu- og flutningastörf.

 

II. Kafli

Réttindi og skyldur, úrsögn, brottvísun, félagsgjald.

3. gr.

Réttur til félagsaðildar

Félagið er opið öllu verkafólki. Allt verkafólk getur sótt um inngöngu í félagið, ef það uppfyllir eftirtalin skilyrði:

a) Sé starfandi á samningssviði félagsins og innan einhverra þeirra starfsgreina, er um getur í 2. gr.

b) Sé fullra 16 ára að aldri.

c) Starfi eða hafi starfað á starfssviði félagsins.

d) Sé ekki skuldugt né standi í óbættum sökum við félagið eða önnur verkalýðsfélög innan Alþýðusambands Íslands.

e) Hafi ekki atvinnurekstur á hendi eða komi fram á annan hátt fram gagnvart verkafólki sem fulltrúi eða umbjóðandi atvinnurekanda.

Komi í ljós, að maður sem tekinn var inn í félagið hafi ekki átt rétt til inngöngu í það, eða að hann/hún hafi gefið villandi eða upplýsingar um atvinnu sína eða annað það sem gengur gegn hagsmunum félagsins, missir hann/hún þegar í stað öll félagsréttindi og verður ekki tekin(n) í félagið að nýju fyrr en úr hefur verið bætt að fullu.

4. gr.

Sá sem vill verða félagsmaður samkvæmt 3. gr., skal afhenda skrifstofu félagsins inntökubeiðni undirritaða með eigin hendi á þar til gerðu eyðublaði, sem félagið lætur í té og, á rétt á félagsskírteini, að því tilskyldu að næsti stjórnarfundur samþykki inntökubeiðnina. Hafi manni verið synjað um inngöngu í félagið, má ekki bera upp inntökubeiðni viðkomandi fyrr en að liðnum tveimur mánuðum frá synjun.

Synji stjórnarfundur einhverjum inngöngu í félagið, má skjóta málinu til framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands og síðan miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, en úrskurður stjórnar gildir þar til annar úrskurður er endanlega felldur.

5. gr.

Úrsögn

Úrsögn skal vera skrifleg og afhendast skrifstofu félagsins. Sá sem segir sig úr félaginu skal láta félagsskírteini sitt fylgja úrsögninni og tilgreina ástæður úrsagnar. Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðshreyfingunni. Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun verið tekin eða meðan vinnudeila sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanna stendur yfir og þar til vinnustöðvun hefur verið formlega verið aflýst.

Um úrsögn félagsins úr Alþýðusambandi Íslands fer skv. 17. gr. laga ASÍ.

6. gr.

Réttindi félagsmanna eru:

a. Fullgildir félagsmenn skv..ákvæðum 4.gr. njóta auk annarra réttinda málfrelsis, tillögu- og atkvæðisréttar á félagsfundum og við allsherjaratkvæðagreiðslur ásamt kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins og þeirra félagasamtaka sem það er aðili að.

b. Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins í samræmi við reglur þeirra þar um.

c. Réttur til að vinna þau störf, sem kjarasamningar félagsins taka til og eftir þeim lágmarkskjörum sem kjarasamningar ákveða hverju sinni.

d. Réttur til afnota af orlofshúsum félagsins og öðrum sameiginlegum eignum eftir því sem reglugerðir og samþykktir félagsins ákveða hverju sinni.

e. Réttur til að sækja fræðslustarf á vegum félagsins eða samtaka sem það er aðili að.

f. Réttur til, aðstoðar vegna vanefnda atvinnurekanda á kjarasamningi og/eða ráðningarkjörum. Annarrar þjónustu sem félagið veitir.

g. Félagsmenn, sem ekki greiða fullt félagsgjald samkvæmt ákvæðum 9. greinar, skulu njóta réttar samkvæmt b-f liðar þessarar greinar.

h. Félagsmenn, 67 ára og eldri, sem hættir eru störfum, halda félagsréttindum þó að þeir greiði ekki félagsgjöld, enda hafi þeir verið félagsmenn eigi skemur en 5 ár samfellt fyrir starfslok.

i. Félagsmenn sem verða öryrkjar og hætta störfum þess vegna njóta réttinda úr sjóðum félagsins samkvæmt reglum þeirra og halda rétti til að kjósa í stjórn félagsins og hafa tillögurétt á fundum félagsins þó þeir greiði ekki félagsgjöld.

7. gr.

Skyldur félagsmanna eru:

a. Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum og fundarsamþykktum í hvívetna og halda í einu og öllu þá kjarasamninga sem félagið hefur gert við atvinnurekendur og aðra.

b. Að veita stjórn félagsins og starfsmönnum þess upplýsingar um kaupgjald og vinnuskilmála hjá þeim atvinnurekendum sem þeir vinna eða hafa unnið hjá.

c. Enginn getur, nema hann beri fram gilda afsökun sem félagsfundur eða trúnaðarráðsfundur metur gilda, skorast undan því að taka kosningu í stjórn, eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins.

d. Að taka endurkosningu eða gegna einhverju starfi sem hann er skipaður eða kosinn til í næstu þrjú ár, en að þeim tíma liðnum getur hann fengið sig undanþeginn starfanum næstu 3 ár.

e. Að skýra formanni félagsins eða starfsmönnum frá því verði félagsmaður þess vís að lögbrot hafi átt sér stað á lögum félagsins.

f. Að stuðla eftir mætti að því að verkafólk gangi í félagið. Enginn félagsmaður má neita öðrum félagsmanni um að sjá félagskírteini sitt.

g. Til að njóta réttinda samkvæmt ákvæðum þessara laga, þarf félagsmaður að framvísa félagsskírteini, sé þess krafist.

8. gr.

Brottvísun

Hafi félagsmaður brotið lög, reglugerðir eða fundarsamþykktir félagsins, bakað því tjón eða unnið því ógagn með öðrum hætti, er trúnaðarráði félagsins heimilt að veita honum áminningu eða víkja honum úr félaginu ef sakir eru miklar, brot ítrekað og áminnt hefur verið áður, eða ef félaginu hefur verið unnið tjón sem telst stórfellt í félagslegum eða fjárhagslegum efnum. Þá getur trúnaðarráð svipt félagsmann rétti til trúnaðarstarfa ef það metur brot hans gefa tilefni til.

Ef félagsmaður er sakaður um brot samkvæmt 1. málsgrein, skal trúnaðarráð úrskurða í málinu eftir að hafa gefið viðkomandi einstaklingi tækifæri til að setja fram sín sjónarmið og málsgögn.

Úrskurði trúnaðarráðs má skjóta til framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands og síðan til miðstjórnar Alþýðusambands Íslands. Úrskurður trúnaðarráðs gildir þar til annar úrskurður hefur verið feldur. Hafi félagsmanni með þessum hætti verið vikið úr félaginu á hann ekki rétt til inngöngu í félagið að nýju nema inntökubeiðni hans hafi verið samþykkt af stjórn félagsins.

9. gr.

Félagsgjald

a. Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi og vera tiltekinn hundraðshluti af öllum launum. Aðalfundur skal jafnframt ákveða hvað skuli vera lágmarksárgjald í félaginu.

b. Þeir félagsmenn sem greiða lágmarksárgjald eins og aðalfundur hefur gert samþykkt um, skulu njóta fullra félagsréttinda. Á fyrsta starfsári félagsmanns innan félagsins, skulu félagsréttindi miðast við að mánaðarlegt félagsgjald, í réttu hlutfalli við lágmarks árgjald, leiddi reikningslega til þess að hann næði að greiða lágmarksárgjald.

c. Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt til félagsins í meira en 1 ár, skulu felldir af félagaskrá.

 

III. Kafli.

Stjórn – Trúnaðarráð – Trúnaðarmenn – Samninganefnd – Skoðunarmenn

A – Stjórn

10. gr.

Stjórn félagsins skipa 7 menn: Formaður, varformaður, ritari, gjaldkeri og 3 meðstjórnendur. Varastjórn skipa 4 menn. Kjörtímabil stjórnarmanna er 2 ár í senn og skal kjósa formann og ritara, og tvo meðstjórnendur og einn varastjórnarmann annað árið, en varaformann, gjaldkera og einn meðstjórnanda og tvo varastjórnarmenn síðara árið. Skal formaður, ritari og tveir meðstjórnendur einn varastjórnarmaður kosnir fyrra árið til tveggja ára í senn, en varaformaður, gjaldkeri, einn meðstjórnandi og tveir varastjórnarmenn til eins árs.

11. gr.

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra mála félagsins milli félagsfunda. Stjórnin ákveður og boðar til félagsfunda. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á fjárreiðum félagsins og eignum þess. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að gögn og aðrar upplýsingar sem tengjast sögu félagsins séu sem best varðveittar. Stjórn ræður starfsmenn félagsins og ákveður laun þeirra, vinnuskilyrði og starfssvið með skriflegum ráðningarsamningi. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum er hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varða.

12. gr.

Stjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir mánaðarlega, en oftar ef þurfa þykir. Formaður kveður til stjórnarfunda og trúnaðarráðsfunda og stjórnar þeim. Heimilt er honum þó að fela öðrum stjórn þeirra kjósi hann svo. Formanni er skylt að halda stjórnarfundi óski þrír stjórnarmenn þess. Hann undirskrifar fundargerðir ásamt ritara fundarins og fundarstjóra. Hann kemur fram fyrir hönd félagsins út á við, nema annað sé ákveðið. Hann undirritar bréf félagsins og gerðir fyrir þess hönd. Formaður ber ábyrgð á starfssemi félagsins og fjárreiðum og gætir þess að fylgt sé lögum þess og reglum í öllum greinum. Hann samþykkir greiðslu reikninga sem félaginu berast.

Varaformaður skal í hvívetna aðstoða formann félagsins í starfi hans og taka við skyldum hans í forföllum formanns.

Varastjórnarmenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema í forföllum aðalmanna.

13. gr.

Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur séu haldnar hjá félaginu og í þær séu skráðar allar fundargerðir, fundarsamþykktir, lagabreytingar og aðalreikningur félagsins. Hann undirritar gerðabækur ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins, en fundargerðir skulu engu að síður allar skráðar. Ritari ber ábyrgð á því ásamt formanni að skjöl félagsins og önnur gögn séu varðveitt með öruggum og skipulegum hætti.

14. gr.

Kosinn gjaldkeri félagsins hefur á hendi, ásamt formanni, eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókhaldi eftir nánari samþykktum stjórnar. Félagskjörnir skoðunarmenn reikninga félagsins hverju sinni, skulu yfirfara samþykktir og reikninga félagsins ásamt fylgigögnum fyrir hvert reikningsár, sem er almanaksárið, og skila athugasemdum þar um ef ástæða er til. Þeir skulu undirrita reikninga félagsins og greinagerð sína með reikningunum.

B – Trúnaðarráð

15. gr.

Í félaginu skal starfa trúnaðarráð sem hefur æðsta vald í málefnum félagsins sé ekki annars getið í lögum þess. Trúnaðarráðið skipa stjórn og varastjórn félagsins ásamt 15 fulltrúum félagsmanna. Kjörtímabil trúnaðarráðsins er tvö ár. Kosning 15 fulltrúa félagsmanna skal fara fram í október ár hvert sama ár og formaður félagsins er kosinn. Stjórn félagsins skipar varamenn í forföllum varamanna. Við val á varamanni skal þess gætt að hann starfi á sama vinnustað og aðalmaður ef þess er kostur. Varamaður skal skipaður í stað aðalmanns, sem hætt hefur störfum á samningssviði félagsins. Allar nefndir, sem starfa í félaginu skulu kosnar af trúnaðarráði, nema annað sé ákveðið í lögum þessum. Stjórn félagsins boðar til funda trúnaðarráðs þegar hún telur þess þörf eða þegar minnst ¼ hluti trúnaðarráðs óskar þess skriflega. Fundir skulu boðaðir skriflega með tilgreindri dagskrá með minnst sjö daga fyrirvara. Trúnaðarráð starfar samkvæmt lögum og fundarsköpum félagsins.

C – Trúnaðarmenn

16. gr.

Stjórn félagsins er skylt að tilnefna trúnaðarmenn á öllum vinnustöðum þar sem fimm félagsmenn eða fleiri vinna og samningar félagsins við atvinnurekendur taka til. Trúnaðarmenn skulu kosnir af þeim félagsmönnum sem starfa á viðkomandi vinnustöðum. Trúnaðarmenn skulu starfa samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og samningsákvæðum Alþýðusambands Íslands við atvinnurekendur. Þeir skulu taka við erindisbréfi er stjórn félagsins setur þeim um störf þeirra. Trúnaðarmenn skulu hafa eftirlit með því að lögum félagsins, samþykktum og samningum sé framfylgt í hvívetna á þeirra vinnustað. Trúnaðarmenn skulu vera tengiliðir milli félagsstjórnar og starfsmanna félagsins og þess verkafólks sem vinnur á viðkomandi vinnustað og eiga þeir rétt á aðstoð stjórnar og starfsmanna félagsins í störfum sínum þurfi þess með.

D – Samninganefnd

17. gr.

Samninganefnd skal vera starfandi hjá félaginu. Hún skal koma fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Nefndina skipa stjórn félagsins, en hún skal að öðru leiti kosin af trúnaðarráði þess. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar, nema annað sé ákveðið. Í forföllum aðalmanna í samninganefnd skal stjórn félagsins heimilt að velja varamenn af vinnustöðum í þeirra stað. Samninganefnd félagsins skal vera til staðar eigi síðar en 3 mánuðum áður en kjarasamningar eru lausir. Samninganefnd hefur umboð til þess að setja fram kröfugerð félagsins við atvinnurekendur. Gera áætlun um skipulag viðræðna og um endurnýjun eða gerð kjarasamnings. Hafa á hendi viðræður um kjarasamninga og slíta þeim. Óska milligöngu ríkissáttasemjara um samningsumleitanir sé talin ástæða til. Að undirrita gerðan kjarasamning.

Samninganefnd er heimilt:

a. Að fela stjórn félagsins umboð sitt til gerðar kjarasamnings og undirritunar hans.

b. Að fela undirnefndum umboð sitt til að gera og undirrita sérkjarasamninga.

c. Að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar einstakra kjarasamninga að hluta til eða öllu leyti.

d. Að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.

e. Að aflýsa vinnustöðvun og fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar um allt að 28 sólarhringa samtals, eða fela stjórn félagsins umboð sitt til þess. Komi til atkvæðagreiðslu í samninganefndinni ræður einfaldur meirihluti. Ákvarðanir samninganefndar um að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt, ákvörðun um sameiginlegar atkvæðagreiðslur og um að aflýsa eða fresta boðaðri vinnustöðvun, þurfa að hljóta samþykki 2/3 hluta atkvæða á lögmætum samninganefndarfundi. Fundi í samninganefnd skal boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Að öðru leyti gilda um störf hennar sömu reglur og um störf trúnaðarráðs.

 

IV. Kafli

Allsherjaratkvæðagreiðsla

18. gr.

Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa um:

a. Kosningu stjórnar, varastjórnar, trúnaðarráðs og skoðunarmenn reikninga félagsins.

b. Vinnustöðvun. Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðagreiðslu þeirra, sem henni er ætlað að taka til.

c. Um miðlunartillögu af hendi ríkissáttasemjara eftir því sem við á.

d. Þegar trúnaðarráð félagsins eða lögmætur félagsfundur, sem sóttur er af minnst 75 félagsmönnum, samþykkir að hún sé viðhöfð. Slíkar atkvæðagreiðslur er þó aðeins hægt að viðhafa um mál sem lögð eru þannig fyrir, að hægt sé að svara með eða nei eða kjósa þurfi á milli tveggja tillagna. Skulu þá útbúnir atkvæðaseðlar um málið svo að kjósandi þurfi að krossa við eða nei, eða við aðra tillöguna ef tvær eru.

e. Við allsherjaratkvæðagreiðslu skal fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi eftir því sem við á. Í stað allsherjaratkvæðagreiðslu á kjörfundi er stjórn félagsins heimilt að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna eða ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað.

 

V. Kafli

Kjörstjórn

19. gr.

Kjörstjórn skal skipuð þremur mönnum. Skulu tveir kosnir af trúnaðarráði og sá þriðji tilnefndur af ASÍ. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir af sömu aðilum. Kjörstjórn skal skipa í október og er kjörtímabil hennar tvö ár. Hlutverk kjörstjórnar er að hafa með hendi yfirstjórn atkvæðagreiðslna og kosninga samkvæmt lögum félagsins. Kjörstjórn hefur umsjón með prentun atkvæðaseðla er gilda við atkvæðagreiðslur hvort heldur er á kjörfundi eða við póstatkvæðagreiðslur. Hún sér um að atkvæðagreiðsla fari löglega fram og fullkomin leynd sé á því hvernig menn greiða atkvæði. Hún telur atkvæði að lokinni atkvæðagreiðslu og úrskurðar um vafaatkvæði.

Kjörstjórn heldur gjörðabók og skal í hana fært áður en kjörfundur hefst:

a. Hvenær hún hafi móttekið tillögur sem greiða á atkvæði um.

b. Um útlit og prentun atkvæðaseðla.

c. Fjölda atkvæðaseðla.

d. Um kjörstað og fjölda starfsmanna á kjörstað.

e. Merkingar í kjörskrá..

f. Hvenær atkvæðakassi er innsiglaður.

g. Hvaða dag og á hvaða tíma kjörstaður er opnaður og honum lokað.

h. Um frestun kjörfundar og fjölda afhentra atkvæðaseðla og greiddra atvæða þann dag.

Þegar kjörfundi eða atkvæðagreiðslu er lokið:

i. Hve margir hafa greitt atkvæði við lok kjörfundar.

j. Hve margir atkvæðaseðlar eru ónotaðir.

k. Hverjar eru niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.

Kjörstjórn skal, þegar eftir að talningu atkvæða er lokið, afhenda formanni félagsins gjörðabók kjörstjórnar undirritaða af kjörstjórn og umboðsmönnum lista ef um listakosningu er að ræða, eða afrit af úrslitum atkvæðagreiðslu.

20. gr.

Stjórn félagsins, skal láta gera skrá yfir alla félagsmenn, sem undirritað hafa inntökubeiðni og verið samþykktir sem fullgildir félagar og atkvæðisbærir eru, í sérstaka kjörskrá. Kjörskrá skal liggja frammi á skrifstofu félagsins öllum félagsmönnum aðgengileg til skoðunar eigi síðar en viku fyrir kjördag. Kærufrestur vegna kjörskrár er til loka kjörfundar. Enginn getur gengið í félagið eftir að kjörfundur er hafinn. Inntökubeiðnir í félagið, sem berast eftir að kjörfundur er hafinn verða ekki afgreiddar fyrr en að honum loknum.

Umboðsmönnum þeirra, sem standa að framboðum við kosningu til stjórnar og trúnaðarráðs, skal heimill aðgangur að kjörskrá þegar framboðsfrestur hefur verið auglýstur.

 

VI. Kafli

Kosningar

A – Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna ársreikninga

21. gr.

Í félaginu skal starfa fimm manna uppstillingarnefnd kosin í september. Tveir eru kosnir af stjórn félagsins og þrír kosnir af trúnaðarráði. Jafnmargir skulu kosnir til vara af sömu aðilum og taka sæti í nefndinni í forföllum varamanna. Nefndin er kosin til tveggja ára í senn. Hún gerir tillögur um hverjir skipi stjórn , varastjórn og skoðunarmenn ársreikninga og leggur tillöguna fyrir trúnaðarráð. Uppstillingarnefnd skal við val á félagsmönnum til trúnaðarstarfa gæta jafnræðis á milli kynja eftir því sem kostur er.

Uppstillingarnefnd skal skila endanlegum tillögum til kjörstjórnar eigi síðar en 14 dögum fyrir auglýstan kjördag samkvæmt ákvörðun kjörstjórnar. Skal listinn merktur bókstafnum A. Tillaga skal liggja frammi á skrifstofu félagsins og auglýst félagsmönnum til sýnis 7 dögum fyrir kjördag.

Berist til kjörstjórnar fleiri listar, en listi stjórnar og trúnaðarráðs, skal þeim skilað eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag. Listana skal merkja bókstöfum í þeirri röð sem þeir berast. Berist aðeins einn listi, þarf kosning ekki að fara fram.

22. gr.

Lista skulu fylgja skrifleg meðmæli minnst 75 félagsmanna. Skrifleg viðurkenning þeirra manna sem í kjöri eru, skal jafngilda meðmælum. Á engan lista má taka upp nöfn manna, sem gefið hafa skrifleg leyfi til þess að nafn þeirra sé sett á annan lista.

23. gr.

Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna ársreikninga, skal vera skrifleg og leynileg og fara fram á kjörfundi. Kjörfundur má standa í allt að tvo daga samkvæmt nánari ákvörðun kjörstjórnar. Kjörstjórn, eða fulltrúar hennar, afhenda félagsmanni kjörseðil á kjörfundi eftir að hafa gengið úr skugga um að hann sé á kjörskrá og skal þá merkt við nafn hans. Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt, að hann markar með ritblýi kross á kjörseðil fyrir framan þann lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Kjörseðill er gildur ef hann ber greinilega með sér hvern eða hverja kjósandi hafi ætlað að kjósa og engin sérstök einkenni eru á honum, að mati kjörstjórnar, er sýni hver kosið hefur.

Ávallt skal einn maður tilnefndur af kjörstjórn til að vera kjörstjóri. Hverju framboði er skylt að tilnefna umboðsmann, sem komi fram fyrir hönd þess gagnvart kjörstjórn og er honum heimilt að vera viðstaddur talningu. Óheimilt er að viðhafa nokkurn kosningaáróður á kjörstað né við hann, né hafa þar uppi tillögur, áskoranir eða hvatningar um kosninguna, aðrar en leiðbeiningar samkvæmt lögum félagsins.

24. gr.

Kjörstjórn innsiglar kjörkassa, að viðstöddum fulltrúum framboðslista, eftir að hún hefur gengið úr skugga um að þeir séu tómir. Þegar félagsmaður hefur greitt atkvæði, skal hann láta atkvæðaseðilinn í innsiglaðan og lokaðan kjörkassa. Kosning má aðeins standa yfir fyrirfram auglýstan tíma daglega. Umboðsmönnum þeirra er að listum standa er heimilt að vera viðstaddir kosninguna. Kjörstjórn ber ábyrgð á því að kjörkassar séu geymdir á öruggum stað milli kjörfunda, standi kosning lengur en einn dag. Talning atkvæða skal fara fram að loknum kjörfundi. Kjörstjórn skal tilkynna úrslit atkvæðagreiðslu um leið og talningu er lokið og fundargerð hefur verið undirrituð. Úrslitum kosninga samkvæmt A lið VI. Kafla, skal lýst á aðalfundi. Úrslitum annarra allsherjaratkvæðagreiðslna skal lýst á næsta félagsfundi eftir atkvæðagreiðslu.

B – Kosning trúnaðarráðs

25. gr.

Uppstillingarnefnd gerir tillögu um hvaða félagsmenn skipi trúnaðarráð. Nefndin skal leita eftir tilnefningum frá stjórn og félagsmönnum og leitast við að skapa einingu um listann. Við val á trúnaðarráðsmönnum skal það haft að markmiði , að í ráðinu sitji fulltrúar sem flestra starfsgreina innan félagsins og sbr. einnig 1. mgr. 21 gr.

Náist ekki samstaða um lista, skal uppstillingarnefnd skila endanlegum tillögum sínum til kjörstjórnar og skal listinn merktur bókstafnum A. Tillaga A skal liggja frammi á skrifstofu félagsins og auglýst til sýnis eigi síðar en 7 sólarhringum áður en kosning hefst. Öðrum listum skal skilað eigi síðar en 7 sólarhringum fyrir kjördag. Komi aðeins fram einn listi þarf kosning ekki að fara fram. Að öðru leyti gilda ákvæði A- liðar 6. kafla laga þessara.

C – Kosning stjórna sjóða félagsins

26. gr.

Um kosningu stjórna sjóða félagsins fer samkvæmt reglugerðum þeirra. Kosning fulltrúa á ársfund Lífeyrissjóðsins Rangæinga, skal fara fram um leið og kosning trúnaðarráðs og eftir sömu reglum og gilda um trúnaðarráðskosningu.

 

VII. Kafli

Fundir

27. gr.

Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í apríl ár hvert. Hann skal boðaður með auglýstri dagskrá með minnst 7 daga fyrirvara og er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Fastir liðir á dagskrá aðalfundar eru þessir:

a. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

b. Endurskoðaðir og áritaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

c. Lýst kjöri stjórnar og varastjórnar, trúnaðaráðs og varamanna, skoðunarmanna ársreikninga og varamanna.

d. Lagabreytingar, ef tillögur liggja fyrir.

e. Ákvörðun félagsgjalds, ef tillaga er um breytingu.

28. gr.

Félagsfundir

Félagið heldur fundi þegar stjórn félagsins eða trúnaðarráð ákveður, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Félagsfund er skylt að halda ef minnst þrjátíu félagsmenn óska eftir því skriflega og tilgreina fundarefni. Þegar halda skal félagsfund, skal formaður skipa dyraverði og skulu félagsmenn framvísa félagsskírteini við inngöngu á fundinn. Félagsfundir eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað, með tveggja sólarhringa fyrir vara eða meir, í minnst einu dagblaði, ríkisútvarpinu eða bréflega. Ef brýna nauðsyn ber til, svo sem vegna vinnudeilna og kjarasamninga, má boða fundi með skemmri fyrirvara en að framan greinir. Skal þá leggja áherslu á að boða þá svo vel sem tök eru á.

Á félagsfundi skal gera grein fyrir störfum stjórnar, trúnaðarráðs og fastanefnda félagsins á milli funda. Félagsfundir geta ekki gert ályktun um ágreiningsmál gegn trúnaðarráði nema minnst 200 fullgildir félagsmenn séu á fundi.

29. gr.

Fundum skal stjórna eftir fundarsköpum félagsins. Vafaatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum atkvæða á félagsfundum, nema lög þessi ákveði annað. Óski fundarmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við því.

 

VIII. Kafli

Deildir

30. gr.

Heimilt er stjórn félagsins og trúnaðarráði, að skipta félaginu í deildir eftir starfsgreinum. Trúnaðarráð setur deildunum starfsreglur. Deildir hafa ekki sjálfstæðan fjárhag.

IX. Kafli

Fjármál

31. gr.

Sjóðir félagsins eru eftirtaldir:

  • Félagssjóður                                                       
  • Sjúkrasjóður
  • Orlofsheimilasjóður                       
  • d) Vinnudeilusjóður
  • d) Fræðslusjóður

Allir sjóðir félagsins, aðrir en félagssjóður, skulu starfa samkvæmt reglugerðum samþykktum af aðalfundi. Reglur hvers sjóðs skulu tilgreina hlutverk hans, stjórn hans, hverjar tekjur hans eru, ávöxtun fjármuna hans og hvernig verja megi fé hans ásamt öðru sem starfsemi sjóðanna varðar.

Sjóði félagsins skal varðveita í banka eða með öðrum jafntryggum hætti. Tryggja skal ávöxtun þeirra á bankareikningi, með kaupum verðbréfa, eða með öðrum þeim hætti sem tryggir hámarksávöxtun þeirra..

Upphæð félagsgjalds skal ákveða á aðalfundi fyrir það ár sem yfir stendur, enda liggi fyrir tillaga um það. Upphæð lágmarks félagsgjalds skal ákveða á aðalfundi, enda liggi fyrir tillaga um það. Tillaga um lækkun félagsgjalds nær því aðeins samþykki að ¾ atkvæða séu því meðmæltir. Stjórn félagsins tilkynnir atvinnurekendum með hvaða hætti þeir skuli standa skil á félagsgjaldi og öðrum gjöldum til sjóða félagsins.

32. gr.

Af tekjum félagsins skal greiða útgjöld við starfssemi þess, svo sem húsaleigu, prentkostnað, laun starfsmanna og annan kostnað sem verður af löglegum samþykktum stjórnar, trúnaðarráðs og félagsfunda.

33. gr.

Komi fram tillögur á félagsfundi um fjárframlög úr sjóðum félagsins, geta þær því aðeins komið til atkvæða á þeim fundi ef meirihluti stjórnar er þeim meðmæltur. Stjórnin getur frestað slíkri tillögu til frekari athugunar til næsta félagsfundar.

34. gr.

Skylt er að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins. Reikningar skulu lagðir fyrir aðalfund áritaðir af endurskoðanda og félagskjörnum skoðunarmönnum reikninga félagsins. Reikningar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins, félagsmönnum til skoðunar, sjö dögum fyrir aðalfund.

 

X. Kafli

Lagabreytingar

35. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé þess getið í fundarboði að tillaga um lagabreytingar liggi fyrir. Ennfremur skulu tillögur um lagabreytingar hafa verið ræddar áður á félagsfundi samkvæmt dagskrá, minnst viku fyrir aðalfund. Tillögum um lagabreytingar, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skila til félagsstjórnar eigi síðar en fyrir lok febrúar ár hvert.

Til þess að lagabreyting nái fram að ganga, verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða minnst, og kemur þá fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og framkvæmdastjórn SGS hafa samþykkt hana.

 lg_undirskriftin_ copy