logo_2_fra_svartlist

Saga Verkalýðsfélags Suðurlands

 

Verkalýðsfélag Suðurlands

Verkalýðsfélag Suðurlands var stofnað 1. desember 2001 eftir nokkurn undirbúning. Stofnfundur þess var að Fossbúð, Austur-Eyjafjöllum þann dag kl.14:00 og voru gestir frá ASÍ og Starfsgreinasambandinu. Félagssvæðið er frá Þjórsá í vestri að Lómagnúpi í austri. Stofnendur voru félagsmenn þriggja verkalýðsfélaga á Suðurlandi; Verkalýðsfélagsins Rangæings, Verkalýðsfélagsins Samherja og Verkalýðsfélagsins Víkings. Fyrsti formaður Verkalýðsfélags Suðurlands var kjörinn Már Guðnason. Tilgangurinn með stofnun félagsins var að gera félagssvæði þessara sameinuðu þriggja félaga virkara með öflugri og markvissri þjónustu. Við sameininguna voru komnir saman í eitt félag 528 manns.   Í dag eru félagsmenn hins vegar í kringum 900, en fyrsta verkefnið var að huga að gerð kjarasamninga.

Rangæingur

Verkalýðsfélag Suðurlands var sem fyrr segir stofnað upp úr 3 öðrum félögum og var Rangæingur verkalýðsfélag eitt þeirra.
Saga Rangæings hófst þann 8. júní 1950 þegar stofnað var félag í Rangárvallasýslu sem fékk nafnið Verkamannafélagið Rangæingur. Stofnfélagar voru 23 og fyrsti formaður þess var Pétur Á. Brekkan, varaformaður var kosin Baldur Ólafsson, ritari var kosin Björn Loftsson og gjaldkeri var kosin Óskar Karelsson. Félagið gekk í Alþýðusamband Íslands þann 20. nóvember árið 1950.

Árið 1970 sameinaðist Verkamannafélagið Dímon Verkamannafélaginu Rangæingi og árið 1989 gekk Bílstjóra-félagið Rangæingur einnig í félagið. Bílstjórafélagið Rangæingur var stofnað á Selfossi í mars 1940. Fyrsti formaður þess félags var Sveinbjörn Stefánsson á Lyngási. Með honum í stjórn voru Guðjón Jónsson á Hvolsvelli sem var gjaldkeri og ritarinn Helgi Guðmundsson frá Strönd.

Eftir þessar sameiningar var nafni hins sameinaða félags breytt í Rangæingur verkalýðsfélag. Fyrir sameininguna í Verkalýðsfélag Suðurlands árið 2001 voru í Rangæingi um 356 félagsmenn og var það því langstærsta félagið sem aðild átti að sameiningunni. Þá var Már Guðnason formaður Rangæings.

Saga úr launabaráttunni

Árið 1950 voru kosnir í samninganefnd fyrir félagið þeir Sigurður Karlsson sem var kosin formaður 1953 og Björn Brekkan sem var ritari félagsins frá upphafi. Þeir fengu það verkefni að vinna að gerð fyrstu samninga sem samið var um við kaupfélagið á staðnum. Á þeim tíma var enginn kaupsamningur til og borguðu kaupfélögin það sem þeim sýndist eða um kr.10 á tímann fyrir 10 tíma vinnu. Þá var engin eftirvinna greidd og um slíkt samdist ekki fyrr en 1951. Þá var samið um 8 tíma í dagvinnu og síðan eftirvinnu eftir það. Fulltrúi kaupfélagsins í samningaviðræðunum var Ingólfur Jónsson kaupfélagsstjóri og síðar þingmaður sjálfstæðismanna í Suðurlandskjördæmi.

Eftirminnilegt atvik úr þessum samningaviðræðum var þegar að samninganefndarmenn komu til Ingólfs og lögðu fyrir hann samningsdrög. Áður en hann las þau sneri hann sér að Birni, ritara verkalýðsfélagsins, og sagði: 
“Björn ert þú orðin kommúnisti?”
Björn hváði við og hugsar sig um dálitla stund og sagði:  
“Hvernig var það Ingólfur, varst þú kommúnisti þegar þú stóðst á tunnunni í Vestmanneyjum?”  
Þar vísaði Björn til þess að hann var í þriðja sæti á lista sjálfstæðismanna í bænum. Þá var Ingólfur ungur maður í Vestmannaeyjum og hafði verið að æsa menn upp í að heimta meira kaup. Steig hann þá upp á tunnu til að láta betur í sér heyra. Ekki fer fleiri sögum af orðaskiptum þeirra Björns og Ingólfs um kommúnisma í þessum samningaviðræðum.

Verkalýðsfélagið Samherjar

Samherjar var heiti á öðru félagi á Suðurlandi sem sameinaðist í Verkalýðsfélag Suðurlands 2001. Undirbúningsfundur að stofnun Verkalýðsfélagsins Samherjar á Kirkjubæjarklaustri var haldin Sunnudaginn 23. september 1951. Þá komu saman í Hrífunesi í Skaftártungu nokkrir áhugamenn um stofnun verkalýðs- eða bifreiðastjórafélags fyrir Leiðvallahrepp (hinn forna). Voru þrír menn tilnefndir til að undirbúa og boða fyrirhugaðan stofnfund. Þetta voru þeir Böðvar Jónsson í Norðurhjáleigu, Tómas Gíslason á Melhól og Árni Jónsson í Hrífunesi.

Laugardaginn 15 des. 1951 var svo haldinn stofnfundur að verkalýðs- og bílstjórafélagi þriggja hreppa austan Mýrdalssands, þ.e. Álftavers, Skaftártungu og Meðallands.Var fundurinn haldinn í Hrífunesi og mættu 24 á fundinn.
Nafn félagsins var valið með því að útbýta miðum og skrifaði hver fundarmanna það nafn sem honum datt í hug og var niðurstaðan sú að fundarmenn komu sér saman um nafnið Samherjar.

Stofnendur félagsins töldust vera 55 og var kosin fimm manna stjórn í félagið. Þar var Árni Jónsson í Hrífunesi kosinn formaður, Sveinn P. Gunnarsson á Flögu var kosinn varaformaður og Böðvar Jónson á Norðurhjáleigu var kosinn ritari. Meðstjórnendur voru kosnir þeir Tómas Gíslason á Melhól og Árni Jóhannesson í Gröf. Í trúnaðarráð voru kosnir fjórir menn. Það voru þeir Jón Gunnarsson frá Borgarfelli, Hilmar Jón Brynjólfsson á Þykkvabæjarklaustri, Halldór Hávarðsson á Króki og Loftur Runólfsson frá Strönd. Endurskoðendur voru kosnir Jón Jónsson á Norðurhjáleigu og Siggeir Jóhannesson á Snæbýli.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs 22. desember 1951 var gengið frá umsókn um inngöngu félagsins í Alþýðusamband Íslands. Á fundi 11. maí 1952 var lesið bréf frá ASÍ um að félagið hafi verið samþykkt og orðið eitt að meðlimum sambandsins.

Á aðalfundi 6. október 1968 var samþykkt að leyfa íbúum austan Hrauns að ganga í félagið og var félagssvæðið þá stækkað svo að það næði yfir alla hreppanna á milli sanda.

Fór nú ört að fjölga í félaginu og á stjórnarfundi 11. nóvember 1968 sóttu 36 Síðumenn um inngöngu í félagið og voru samþykktir, en árinu áður höfðu 52 sótt um inngöngu.

Á aðalfundi 4. desember 1970 var samþykkt að gerast aðili að sameiginlegum lífeyrissjóði Suðurlandsumdæmis. Var þá lesið upp bréf frá ASÍ þar sem hvatt var til að öll félög gerðust aðilar að lífeyrissjóðnum svo að hann yrði sem stærstur og þjónaði sem best sínu hlutverki. Þá var rætt um stofnun ASS (Alþýðusambands Suðurlands), en vegna ýmissa deilna félaga var ákveðið að taka ekki afstöðu til málsins meðan deilt væri um stofnun sambandsins.

Heimild til fyrstu vinnustöðvunar félagsmanna var veitt á aðalfundi 24. nóvember 1971. Á þeim fundi var einnig samþykkt að fresta að sækja um inngöngu í ASS þar til skýrðist betur hvaða hagur væri að því.

Síðustu stjórn Samherja fyrir sameiningu skipuðu: Sveinbjörg Pálsdóttir sem var formaður, Hilmar Gunnarsson gjaldkeri og ritari var Guðrún Lilja Bjarnadóttir. Félagsmenn í Samherjum við sameiningu VLFS voru 82.

Verkalýðsfélagið Víkingur

Verkalýðsfélagið Víkingur í Vík í Mýrdal var þriðja félagið sem sameinaðist Verkalýðsfélag Suðurlands.

Það var stofnað þann 15. desember árið 1932 og er því elsta félagið sem stendur að baki Verkalýðsfélagi Suðurlands. Fyrsti formaður félagins var Oddur Jónsson. Með honum í stjórn var Óskar Jónsson ritari og Guðjón Guðmundsson gjaldkeri. Meðstjórnendur voru Óskar Sæmundsson og Haraldur Einarsson. Varaformaður var Guðmundur Guðmundsson, en Þórður Stefánsson var vararitari og Þorsteinn Ísleifsson var varagjaldkeri.

Fyrsti aðalfundur var síðan haldinn þann 5.janúar 1933 og þá var kosinn formaður Óskar Sæmundsson og gegndi hann embættinu í þrjú ár, eða til ársins 1936 er Guðmundur Guðmundsson (Gvendur skóari) tók við því.

Árstillag félagsmanna árið 1933 var ákveðið 4 krónur fyrir karlmenn og 2 krónur fyrir konur og unglinga.

Á þessum stofnfundi var samþykkt að sækja um upptöku í ASI. Verkalýðsfélagið Víkingur varð formlega aðili að Alþýðusambandi Íslands þann 28. janúar 1933.

Hvatt til stofnunar félagsins

Tildrög að stofnun Víkings voru þau að vorið 1932 kom Jón Baldvinsson alþingismaður, forseti Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands, til Víkur. Hann kvaddi Guðmund Guðmundsson á sinn fund og hvatti hann til að standa fyrir stofnun verkalýðsfélags í Vík.

Þann 11.desember 1932 komu menn svo saman til fundar í kjallaraherbergi í húsinu Sandi og ræddu stofnun verkalýðsfélags. Á þessum fundi var Guðlaugur G. Jónsson fundarstjóri og Oddur Jónsson var fundarritari. Á fundinum voru skráð niður nöfn þeirra manna sem áhuga höfðu á félagsstofnun og kosin var 5 manna undirbúningsnefnd.

Nefndin boðaði fljótlega til stofnfundar sem ákveðið var að halda í barnaskólanum í Vík þann 15. desember. Setti Guðmundur Guðmundsson skósmiður í Vík fundinn og gat þess að verkefnið væri að stofnsetja verkalýðsfélag. Var fundarritari þá kosinn Óskar Jónsson

Stofnendur voru 48 talsins og ákveðið var að gefa hinu nýja félagi nafnið “Víkingur”.

Félagssvæðið var Hvamms- og Dyrhólahreppar sem síðar urðu að Mýrdalshreppi 1982.

Guðmundur skósmiður í Vík hafði verið aðal hvatamaðurinn að stofnun félagsins. Var hann mikill verkalýðssinni og ávallt reiðubúin til sóknar ef hagsmunir verkalýðsins voru til umræðu. Ávann hann sér mikla hylli félagsmanna og var í forystusveitinni í um 30 ára skeið, þar af formaður frá 1936 til 1948 og aftur 1953 til 1.apríl 1964 er hann lést að heimili sínu í Vík.

Stofnuð æskulýðsdeild

Æskulýðsdeild fyrir 10-16 ára var stofnuð innan félagsins 25.september 1934. Tilgangur hennar var eins og segir í 2.grein reglna deildarinnar:

“Að safna saman og skipuleggja hina vinnandi æsku á félagssvæðinu –drengi og stúlkur- til þess að auka skilning þeirra á samtökum verkalýðsins og yfir höfuð að vinna að því, að skapa einhuga, djarfan og sanngjarnan verkalýð, sem í krafti samtakanna, verði fær til að vinna að hugsjónum hinna vinnandi stétta”.

Sigur vegavinnumanna

Vorið 1934 hóf ASÍ baráttu fyrir hækkun á launum í vegavinnu, en þá var tímakaup verkamanna í Vík 65 aurar sem var þá algengt kaup víða í sveitum landsins. Sumarið 1934 var mikið unnið í vegagerð á þjóðveginum í Mýrdal og fór Víkingur fram á að tímakaup á félagssvæðinu yrði hækkað í 80 aura. Var ASÍ falið að semja um þessa hækkun við ríkisstjórnina sem var hin þverasta og tók ekki í mál að hækka launin nema í 70 aura á tímann. Þá fyrirskipaði ASÍ verkfall í vegavinnu víða um land.

Barst tilkynningin til stjórnar Víkings að morgni 6. júní 1934, en formaðurinn, Óskar Sæmundsson, var þá staddur á Selfossi og féll það í hlut varaformannsins, Guðmundar Guðmundssonar, að fara út á vinnustaðina og tilkynna verkfallsskipunina.

Fullur sigur í deilunni

Eftir miklar umræður og langa fundarsetu kom formaður með tíðindi sem hann taldi að stytt gæti umræðurnar.

Samkomulag hafði náðst á milli ríkisstjórnar Íslands og ASÍ um 80 aura tímakaup frá 1. júlí. Þar með var ljóst að fullur sigur var í höfn.

Um vorið voru haldnar alþingiskosningar og myndaði Framsóknarflokkur í kjölfarið ríkisstjórn með þátttöku Alþýðuflokksins. Samdi hin nýja ríkisstjórn um það við ASÍ að kaup í vegavinnu yrði 90 aurar á tímanna frá 1. ágúst 1934. Auk þess fylgdu ýmis hlunnindi þeim samningum, m.a. að flytja skyldi verkamenn til og frá vinnustað þeim að kostnaðarlausu. Eftir þetta hélst kaupgjald óbreytt á félagssvæði Víkings fram yfir 1940, en sigursins, sem vannst sumarið 1934 var lengi minnst þar um slóðir.

Enga íhaldsmenn í stjórn.

Á fundi 21.september 1935 var svohljóðandi tillaga borin upp á fundi:

“Við undirritaðir gerum það að tillögu okkar að bætt verði í lög félagsins að í stjórn þess megi ekki sitja íhaldsmenn, né aðrir þeir menn er þeim eru áhangandi”. Kjartan Sigurjónsson hafði framsögu og skýrði tillöguna þar á meðal að með orðinu íhaldsmenn ættu þeir við þá menn er fylgdu stefnu sjálfstæðismanna, bændaflokksmanna og þjóðernissina þ.e. nasista.
Tillaga þessi var felld með 15 atkvæðum gegn sex.

Verkalýðsfélagið Víkingur taldi um 90 félagsmenn fyrir sameininguna við verkalýðsfélag Suðurland 2001. Þá var Eiríkur Tryggvi Ástþórsson formaður Víkings.

Brýn þörf

Framtíðarsýn Verkalýðsfélag Suðurlands er að vinna að því að snúa við áliti almennings á að ekki sé þörf á stéttarfélagi. Almenningur gerir sé ekki alltaf ljóst hvað mikið starf fer fram innan veggja á skrifstofum félaganna. Helstu viðsemjendur í gegnum tíðina hafa verið VSÍ, VMS, ríkið og sveitarfélög, en í dag eru það fyrst og fremst Samtök atvinnulífsins, ríki og sveitarfélög.