Verðbreytingar á vörukörfu ASÍ sl. 7 mánuði

Vörukarfa ASÍ hækkaði í verði hjá 9 verslunum af 15 frá janúar til í loka ágúst 2013. Mesta hækkunin var hjá Iceland 5,6%. Hjá fjórum verslunum lækkaði vörukarfan á tímabilinu og hjá tveimur stóð verðið á henni nánast í stað. Mesta lækkunin var 4,2% hjá Hagkaupum.

Vörukarfa ASÍ og vísitala neysluverðs

Til hliðsjónar má benda á að verð á mat og drykkjarvörum í vísitölu neysluverðs hefur hækkað um 2,6% frá því í janúar þar til nú í ágúst. Þegar rýnt er í verðhækkanir verslunarkeðjanna á þessum 7 mánuðum má sjá að verðbreytingarnar eru mjög mismunandi eftir verslunum. Lágvöruverðsverslanirnar Bónus, Nettó og Iceland hækka vörukörfuna meira en aðrar verslanir. Mesta hækkun á þessu tímabili er eins og áður segir hjá Iceland 5,6%, hjá Nettó var hún 4,7%, hjá Bónus nam hækkunin 3,8%, hjá Samkaupum-Strax 3,2% og Kaupfélagi Skagfirðinga hækkaði karfan um 2,9%.

Krónan, Nóatún, Samkaup-Úrval og Kjarval hækka vörukörfuna minna. Verð vörukörfunnar lækkar mest hjá Hagkaupum um 4,2%, hjá Tíu–ellefu um 3,5%, Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga 2,9% og Kaupfélagi Steingrímsfjarðar um 1,3%. Litlar sem engar verðbreytingar voru hjá Víði og Kaskó á þessu 7 mánaða tímabili.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðal heimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslanakeðjum: Í lágvöruverðsverslunum Bónus, Krónunni og Nettó og í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Nóatúni og Samkaupum-Úrvali og klukkubúðunum, Tíu-ellefu og Samkaupum-Strax.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.  

Tekið af síðu ASÍ