Verðbólga nú 3,3%

Verðbólga mælist nú 3,3% á ársgrundvelli að því er fram kemur í nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Verðlag hækkaði um 0,53% milli maí- og júnímánaðar og skýrist sú hækkun að mestu af hækkunum á eldsneyti og hækkunum á markaðsverði húsnæðis

 

Mest áhrif til hækkunar á verðlagi í júní hefur hækkun á flugfargjöldum til útlanda sem hækka um 11,4% og hafa 0,17% áhrif til hækkunar á verðlagi. Flugfargjöld, sem að jafnaði sveiflast mikið í verði, hafa lækkað um 0,8% frá sama tíma í fyrr. Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkar um 0,8% frá fyrra mánuði (0,11% vísitöluáhrif) vegna hækkana á markaðsverði húsnæðis. Þá hækkar verð á bensíni og olíu um 1,8% frá því í maí (0,10% vísitöluáhrif) en eldsneytisverð sem einnig hefur sveiflast umtalsvert á liðnu ári er nú ríflega 1% lægra en í júní í fyrra.

Af öðrum liðum vísitölunnar má nefna að matur- og drykkvörur hækka um 0,4% milli mánaða.  Brauðmeti, kjöt, fiskur, ávextir og grænmeti hafa áhrif til hækkunar en drykkjarvörur lækka í verði. Þá hækkar verð á fötum um 1,3% og símaþjónusta hækkar sömuleiðis um 0,5% frá því í maí.

Tekið af heimasíðu ASÍ