Samkvæmt vef Stjórnarráðsins hefur ríkisstjórnin samþykkt breytingar á lögum um tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Fer rétturinn úr þremur mánuðum í sex mánuði enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt. Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði.

Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.

Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021.

Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfali vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hlutabótaleiðin, hefur verið lengdur til 31. október 2020. 

Fólk sem hefur verið í fullu starfi og hefur sætt minnkuðu starfshlutfalli í allt að 50 prósent á rétt á hlutabótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.

Þá verða tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.