Starfandi einstaklingum fjölgar

Hagstofa Íslands birti í dag niðurstöður úr ársfjórðungslegri vinnumarkaðsrannsókn sem nær yfir tímabilið frá byrjun júlí til september loka. Túlka má niðurstöðurnar með bjartsýni en hratt hefur dregið úr atvinnuleysi yfir sumarmánuðina, starfandi einstaklingum hefur fjölgað og vinnutími eykst. Atvinnuleysi mælist 5% á þriðja ársfjórðungi, þar sem atvinnulausum fækkaði að jafnaði um 4100 milli ársfjórðunga, og um 1500 milli ára. Ef atvinnuleysið er skoðað nánar sést að langtímaatvinnulausir eru sem fyrr stærsti hópurinn eða 35,6% af fjölda atvinnulausra og fjölgar um tvö hundruð frá sama ársfjórðungi í fyrra.

Starfandi einstaklingar voru 172.700 á þriðja ársfjórðungi og fjölgaði milli ára, en aukninguna má rekja til fjölgunar einstaklinga í fullu starfi á meðan fækkun varð á hlutastörfum. Ef litið er til meðalatvinnuþátttöku síðustu fjögurra ársfjórðunga fer hún loks vaxandi milli ársfjórðunga og mælist nú 80,3%, en töluvert hafði dregið úr atvinnuþátttöku eftir hrun. Lítillega dregur úr vinnutíma milli ára, en þá þróun má rekja til styttri vinnutíma í hlutastarfi á meðan vinnutími í fullu starfi jókst.

Þróun fjölda einstaklinga utan vinnumarkaðar þokaðist upp á við eftir hrun en viðsnúningur varð loks á þeirri þróun og fækkaði einstaklingum utan vinnumarkaðar milli ársfjórðunga þegar horft er til meðaltals síðusta fjögurra fjórðunga. Hins vegar, þrátt fyrir fjölgun milli ársfjórðunga, þá er meðalfjöldi utan vinnumarkaðar meiri en á sama tímabili á síðasta ári. Þegar nánar er litið utan vinnumarkaðar sést að eftirlaunaþegum fjölgar á meðan námsmönnum fækkar miðað við sama ársfjórðung síðasta árs, en einnig fækkar þeim umtalsvert sem skráðir eru atvinnulausir utan vinnumarkaðar á meðan nokkur aukning er á heimavinnandi.

Tekið af heimasíðu ASÍ