Í Mýrdalshreppi eru tugir rekstraraðila í ferðaþjónustu. Líkt og alþjóð veit þá er vinnuaflið í ferðaþjónustunni að stórum hluta byggt upp af erlendum starfsmönnum, en Mýrdalshreppur sker sig sennilega úr þegar kemur að þeim efnum, en rúmlega 40% íbúa sveitarfélagsins eru af erlendu bergi brotnir.
Margt af þessu fólki eru ungmenni, milli tvítugs og þrítugs, og hefur því undirritaður, ungi maðurinn eðlilega mikil samskipti við þetta fólk, á í vinskap við það og fæ að heyra það sem liggur því á hjarta.
Á undanförnum árum hefur það færst í aukinn að eftirlitsmyndavélar séu notaðar á vinnustöðum. Hefur það verið upplifun mín, eftir mikil samskipti og samgang við starfsmenn í ferðaþjónustu að notkun atvinnurekanda á eftirlitsmyndavélum brjóti persónuverndarlög all verulega. Fylgst er með starfsfólki í gegnum eftirlitsmyndavélar án rökstuðnings hvort sem atvinnurekandi er á staðnum eða fylgist með í gegnum snjalltæki. Eftirlitsmyndavélum er komið fyrir á kaffistofum, starfsmenn fá skammir og skipanir í gegnum samfélagsmiðla vegna þess að atvinnurekandi hefur séð á myndavélum eitthvað sem honum mislíkar. Fyrir utan það að brjóta í bága við persónuverndarlög hefur þetta gríðarleg andleg og sálræn áhrif á það starfsfólk sem verður fyrir þessu óforkastanlega áreiti. Eftirlitsmyndavélar eru til þess gerðar að tryggja öryggi manna og muna, ekki til að valdefla atvinnurekendur enn frekar og ýta undir leti þeirra.
Mér þykir því við hæfi hér rétt í lokin að drepa á nokkrum punktum varðandi persónuverndarlög:
- Tilgangur eftirlitsmyndavéla þarf að vera skýr, málefnalegur og lögmætur, t.d til að koma í veg fyrir þjófnað eða til að tryggja öryggi manna og muna. Óheimilt er að nýta myndefnið í öðrum tilgangi.
- Atvinnurekandi þarf að gæta þess að ganga ekki lengra en þörf krefur við vöktun og honum BER að forðast óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra sem sæta vöktuninni.
- Persónuvernd telur óheimilt að setja upp eftirlitsmyndavélar á kaffistofum starfsmanna þar sem lögbundinn hvíldartími er nýttur.
- Atvinnurekanda er ekki heimilt að fylgjast með vinnuskilum í gegnum eftirlitsmyndavélar, nema í tilfellum þar sem ekki er unnt að koma við verkstjórn með öðrum hætti eða tryggja öryggi á viðkomandi svæði.
- Atvinnurekandi þarf að fræða starfsmenn um þá vöktun sem á sér stað, tilgang hennar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær eru varðveittar. Auk þess þarf hann að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að viðkomandi einstaklingar geti gætt hagsmuna sinna. Mikilvægt er að fræðslan sé veitt með sannanlegum hætti, eftir atvikum með setningu reglna.
- Þú átt rétt á að skoða gögn, s.s. upptökur, sem verða til um þig við vöktunina, en slíka beiðni má hvort sem heldur setja fram munnlega eða skriflega.
- Ef vöktun fer fram á almannafæri eða á stöðum sem aðrir hafa aðgang að en eingöngu starfsmenn viðkomandi ábyrgðaraðila þarf glögglega að gera viðvart um að vöktun sé í gangi, svo sem með viðvörunarskiltum eða límmiðum á augsýnilegum stöðum.
Líkt og Enski rithöfunduirnn Wilfrid Sheed sagði á sínum tíma: “Whether or not Big Brother is watching us, we certainly have to watch him, which may be even worse.” Hvort sem atvinnurekendur gerist svo sannarlega brotlegir við persónuverndarlög eða ekki, þá ber okkur að veita þeim aðhald og sjá til þess að friðhelgi einkalífs sé virt.
Ástþór Jón Tryggvason
Höfundur er fulltrúi VLFS í stjórn ASÍ-UNG.