Nýr samningur undirritaður

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, skrifar undir samnginginn fyrir hönd SGS.Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað nýjan samning sem felur í sér viðbætur við þær hækkanir sem samið var um á síðasta ári á hinum almenna vinnumarkaði. Samningurinn byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 og bókun um lífeyrisréttindi frá árinu 2011 og er ætlað að tryggja jafnræði í kjaraþróun á grundvelli sameiginlegrar launastefnu og jöfnun lífeyrisréttinda. Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins fer með umboð 15 aðildarfélaga sambandsins og undirritaði samningin fyrir þeirra hönd. Önnur aðildarfélög sambandsins undirrituðu samninginn einnig (Stéttarfélag Vesturlands og Flóabandalagið).

Samningurinn felur í sér breytingar á launaliðum og lífeyrisréttindum svo:
2016: Í stað 5,5% launaþróunartryggingar kemur 6,2% almenn launahækkun, að lágmarki kr. 15.000 á mánuði. Launahækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2016 í stað 1. maí 2016. Hafi launagreiðandi framkvæmt almenna hækkun launa gagnvart þorra starfsmanna á tímabilinu 2. maí 2015 til 31., desember 2015 er heimilt að draga hana frá hækkuninni. Þó skal enginn starfsmaður fá minna en 6,2% launahækkun á tímabilinu 2. maí til 31. desember, að lágmarki kr. 15.000 á mánuði.

2017: Í stað 3% almennrar launahækkunar 1. maí 2017 kemur 4,5% almenn launahækkun

2018: Í stað 2% almennrar launahækkunar 1. maí 2018 kemur 3% almenn launahækkun

Lífeyrisréttindi:
Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar og verður eftirfarandi:

2016: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júní 2016 um 0,5% stig og verður 8,5%

2017: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júní 2017 um 1,5% stig og verður 10%

2018: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júní 2018 um 1,5% stig og verður 11,5%.

Aukning mótframlags í lífeyrissjóðin skilar aukinni réttindaávinnslu þannig að einstaklingur sem greiðir í lífeyrissjóð skv. þessu alla starfsævina getur vænst þess að fá um 76% af meðaltali ævitekna úr lífeyrissjóði í stað 56% áður. Örorkubætur og barna- og fjölskyldulífeyrir hækka í sama hlutfalli. Tryggt verður að einstaklingur geti valið að verja a.m.k. hluta af hækkun iðgjaldsins í bundna séreign.

Tekið af síðu SGS