www.asi.is

Við höfum náð árangri í kjarasamningum síðustu ár – árangri sem stefnt var að, það er að hækka lægstu laun á vinnumarkaði, hífa upp taxtana og einbeita okkur að þeim sem fá bara laun samkvæmt töxtum og eiga litla möguleika á að auka tekjur sínar. Þetta eru mikilvægir sigrar í þágu réttlætis og jöfnuðar og það birtist að hluta til í margumræddri launavísitölu fyrir októbermánuð. Gögn Hagstofu um launaþróun sýna að launaskrið hefur ekki orðið á almenna vinnumarkaðnum heldur hefur kaupmáttaraukning ratað þangað sem að var stefnt, til þeirra lægst launuðu.

Fleiri kraftar en beinar launahækkanir hafa áhrif á vísitöluna: Stytting vinnutímans ýkir lokaniðurstöðuna, en atvinnurekendur og launafólk hafa verið sammála um að styttingin fæli ekki í sér beina hækkun launakostnaður heldur skilaði sér í minni veikindum og meiri framleiðni. Þá hafa afturvirkir samningar áhrif á launavísitölu en þeir eru afturvirkir vegna þess hversu lengi dróst að ganga frá samningum og fær fólk þá greiddar uppbætur í formi eingreiðslu. Að lokum má minna á að stóraukið álag á margar stéttir skilar sér eðlilega inn í aukið vaktaálag vegna meiri vinnu á kóvid-álagstímum og auknar álagsgreiðslur hækka launavísitölu.

Að sjóða þessa hækkun launavísitölunnar niður í fyrirsagnir um stóraukið launaskrið eða ofalið launafólk er villandi og rangt. Tímapunkturinn er samt ekki tilviljun. Samtök atvinnurekenda eru að hefja sama söng og í kringum endurskoðun lífskjarasamninganna sem fór fram síðasta haust, það er að launakostnaður sé sérstaklega íþyngjandi á Íslandi og að umsamdar launahækkanir muni ríða atvinnurekendum að fullu. Samhliða er því haldið fram að laun á Íslandi séu miklu hærri en annars staðar og það komi niður á „samkeppnishæfni“ Íslands. Þetta er einhvers konar veiðiferð sem hófst á hótunum um að hlaupa frá samningum sem SA höfðu þó sjálf undirritað og mun á endanum sennilega beinast að stjórnvöldum og þau vera krafin um enn frekari ívilnanir fyrir atvinnurekendur algerlega óháð stöðu þeirra og hvernig vandi þeirra er tilkominn.

Atvinnuleysið sem íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir er fyrst og fremst tilkomið vegna hruns ferðaþjónustunnar og fjölda stöðugilda þar en ekki vegna umsamdra launahækkana. Þarna kemur til kraftur sem ekkert okkar fær ráðið og er varla á ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar – COVID 19.

Kreppan af völdum veirunnar hefur lagst með afar mismunandi hætti á atvinnugreinar og landsvæði. Sums staðar hefur veltan aukist en annars staðar hrunið. Það er áhyggjuefni ef Samtök atvinnulífsins ætla aftur að grafa undan friði og fyrirsjáanleika á vinnumarkaði með áróðri gegn kjarasamningum og réttindum launafólks. Það er gert í nafni hugmyndafræði sem opinberast i orðum forstöðumanns efnahagssviðs SA á síðum Morgunblaðsins í gær þar sem hún amast yfir mikilli þátttöku fólks í stéttarfélögum hér á landi. Það er svo sem gömul saga og ný að samtakamáttur launafólks sé forystu atvinnurekenda þyrnir í augum, en þeirri skoðun deila ekki endilega atvinnurekendur um landið þvert og endilangt sem njóta þess fyrirsjáanleika sem fæst með lengri kjarasamningum. Enn fremur hefur öflug verkalýðshreyfing átt ríkan þátt í að byggja upp þau lífsgæði sem Ísland þó státar af, samhliða aukinni verðmætasköpun. Vilji forysta SA hverfa af þeirri braut er ágætt að það sé sagt berum orðum. En í þeirri afstöðu er forystan einangruð í íslensku samfélagi.

Greinin, sem er eftir Drífu Snædal forseta ASÍ, birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.