Laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin

Mikið hefur verið fjallað um laun og launakjör á Íslandi í samanburði við kjör félaga okkar á hinum Norðurlöndunum, en lítið hefur verið um haldbærar upplýsingar um hver þessi munur er. ASÍ hefur reglulega gert samanburðarkannanir á lífskjörum hér og á Norðurlöndunum og þá horft l bæði til tekna, skatta sem og ýmissa tilfærslna eins og barna- og húsnæðisbóta. Undanfarin ár hafa hagstofur innan ESB og EES landanna unnið að samræmingu hagskýrslugerðar um laun og tekjur einstakra starfsstétta. Því er orðið mun auðveldara að bera saman laun eftir starfsstéttum en áður var. Í þessari úttekt er litið til reglulegra dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum árið 2013.

Á mynd 1 má sjá samanteknar niðurstöður um meðaltal dagvinnulauna á Norðurlöndunum árið 2013 m.v. meðalgengi viðkomandi gjaldmiðla skv. Seðlabanka Íslands á því ári. Á myndinni má sjá dagvinnulaunin án tillits til verðlags og skatta (grænu súlurnar), að teknu tilliti til verðlags (rauðu súlurnar) og að teknu tilliti til bæði verðlags og skatta (bláu súlurnar).

Eins og sjá má eru laun á hinum Norðurlöndunum talsvert hærri en hér á landi eða ríflega 60% hærri að meðaltali. Hæst eru dagvinnulaunin í Danmörku og Noregi en munurinn er minni gagnvart Svíþjóð og Finnlandi.

Að baki þessum mikla mun á launum er einnig talsverður mun á verðlagi þannig að launin endast ekki endilega jafnvel í öllum löndunum, þ.e. kaupmáttur þeirra er mis mikill. Til að leiðrétta fyrir mismunandi verðlagi milli landa má nota svokallaða kaupmáttarjafnvægisstuðla, þar sem verðlag sambærilegra neysluvara er borið saman til að gera launasamanburðinn raunhæfari (rauðu súlurnar). 

 

Tekið af síðu ASÍ

Hér má sjá ítarlegri fréttaskýringu