Alþýðusamband Íslands er þátttakandi í alþjóðlegri herferð undir yfirskriftinni Make Amazon Pay eða Látum Amazon borga. Tilefnið er óásættanleg framkoma risafyrirtækisins gagnvart starfsfólki sínu.
Efnt verður til aðgerða 27. nóvember, á svörtum föstudegi (Black Friday), sem er einn stærsti verslunardagur Bandaríkjamanna og hefur jafnframt fest sig í sessi sem útsöludagur hér á landi og víðar. Starfsmenn Amazon munu efna til mótmæla og jafnvel verkfalla á starfstöðum Amazon víða um heim og í kjölfarið munu þingmenn í fjölmörgum löndum ljá átakinu rödd sína og sameinast um tillögur til lagabreytinga sem myndu tryggja réttindi og kjör starfsfólks.
Þetta eru kröfurnar sem lagðar eru fram:
1. Kjör og réttindi starfsfólks: þ.e. sanngjörn laun, hlé á vinnutíma, öryggi á vinnustað og veikindaréttur.
2. Starfsöryggi: m.a. með því að hætta lausráðningum og gerviverktöku og tryggja gagnsæja ferla fyrir kvartanir.
3. Virðing fyrir réttindum launafólks: m.a. með því að hætta skipulögðu niðurbroti stéttarfélaga, viðurkenna samningsrétt launafólks og tryggja samráð við fulltrúa launafólks.
4. Sjálfbærni í rekstri: m.a. með því að stefna að kolefnishlutleysi fyrir 2030, innleiða réttlát umskipti og hætta að styðja við málstað þeirra sem afneita loftslagsbreytingum.
5. Greiða til samfélagsins: m.a. með því að greiða skatta í þeim löndum sem Amazon starfar í, hætta að nota skattaskjól og draga úr einokun.
Meðal þeirra sem hafa staðfest þátttöku sínu í átakinu eru ITUC, Public Services International og Amazon Workers International. Þátttaka ASÍ var samþykkt á fundi miðstjórnar 4. nóvember 2020.
Amazon er eitt valdamesta stórfyrirtæki í heimi með vinnustöðvar í fjórtán löndum en starfsemin teygir sig um allan heim, þ. á m. til Íslands. Forstjóri Amazon er ríkasti maður heims og hefur COVID-faraldurinn aukið mjög á auðæfi hans vegna aukinna heimsendinga. Samhliða hefur verið dregið fram í dagsljósið hversu illa búið er að starfsfólki fyrirtækisins. Heilsu þess og öryggi er ítrekað stefnt í hættu. Sem dæmi má nefna að einn starfsmaður á að skanna þrjátíu sendingar á færibandi á einni mínútu, undir rafrænu eftirliti, og fær aðeins tvær fimmtán mínútna pásur á dag. Innifalið í henni er að koma sér til og frá mataraðstöðu starfsmanna sem getur tekið allt að því allan tímann. Slysatíðni er há. Starfsfólk Amazon víða um heim hefur látið meira í sér heyra og sent frá sér ákall um bætt starfsumhverfi. Með átaki Progressive International er markmiðið að taka undir með kröfum þeirra og þrýsta á breytingar. Íslendingar eru notendur Amazon og mikilvægt að upplýsa okkar félaga og íslenska neytendur um aðbúnað og aðstöðu launafólks hjá fyrirtækinu.