Innfluttar vörur hafa hækkað um 60% á fjórum árum

Innfluttar vörur hafa hækkað um ríflega 60% frá því í ársbyrjun 2008 og eiga lang stærstan þátt í mikilli verðbólgu undanfarin ár. Á sama tíma hefur gengi krónunnar veikst um ríflega 80%.  Sérstaka athygli vekur að verð á innfluttum mat- og drykkjarvörum hefur hækkað um ríflega 80%, eða svipað og verð á erlendum gjaldeyri á tímabilinu. Sé litið til verðþróunar á öðrum innfluttum vörum má sjá að verðlag þeirra fylgir almennt gengi krónunnar nokkuð náið. Þannig hefur t.a.m. verð á fötum og skóm hækkað um ríflega 70% frá því í ársbyrjun 2008, að útsöluáhrifum undanskildum, húsgögn og ýmiss heimilisbúnaður hafa hækkað litlu minna og nýjir bílar og varahlutir um rúmlega 60%.

Verðlag innfluttra vara ræðst annars vegar af innkaupsverði í erlendum gjaldeyri og hins vegar af innlendum kostnaðarþáttum ss. launum og öðrum rekstrarþáttum, sem ekki hafa tekið viðlíka hækkunum og erlendur gjaldeyrir á undanförnum árum. Þó óumdeilt sé að veik staða krónunnar sé stærsti verðbólguvaldur síðustu ára er ljóst að miklar verðhækkanir, einkum í matvöruversluninni, verða ekki skýrðar með veiku gengi krónunnar einu saman.



 

Tekið af heimasíðu ASÍ