Fyrr í haust dæmdi Héraðsdómur Suðurlands í máli félagsmanns Verkalýðsfélags Suðurlands gegn dvalarheimili á félagssvæðinu. Félagsmanninum hafði verið sagt upp á grundvelli ákvæðis kjarasamnings sem heimilar uppsagnir vegna skipulagsbreytinga. Forstöðumaður dvalarheimilisins byggði hins vegar mat sitt um hverjum skyldi segja upp meðal annars á þeim rökum að félagsmaðurinn hefði takmarkaða íslenskukunnáttu og verið frá vinnu vegna veikinda. Taldi dómurinn því að dvalarheimilið hefði ekki sýnt fram á að uppsögnin hafi byggst á málefnalegum forsendum eins og áskilið er í kjarasamningi. Uppsögnin var þannig talin ólögmæt og brjóta gegn kjarasamningsbundnum réttindum félagsmannsins. Voru honum því dæmdar bætur sem námu um þriggja mánaða launum.