Áhættumat á vinnustað og forvarnir
Vinnueftirlitið vill jafnframt ítreka eftirfarandi:
Atvinnurekanda ber að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Það felur m.a. í sér ábyrgð á að gert sé áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Sjá nánar í reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Í áhættumatinu skal m.a. meta vinnutíma starfsmanna með hliðsjón af gildandi vinnutímaákvæðum, sbr. hér að framan.
Bent er á að gera skal sérstakt áhættumat með tilliti til starfa ungmenna yngri en 18 ára. Um þennan aldurshóp, sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, gildir sérstök reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga og er þar m.a. fjallað ítarlega um vinnutíma og hvíldartíma þessa hóps og hvaða verk þau mega vinna og hvaða verk þau mega ekki vinna.
Vinnueftirlitið hvetur fyrirtæki í ferðaþjónustu til að fara yfir vinnutímamál hjá sér til að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi og vinnuskipulag öllum til hagsbóta.
Á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, má nálgast lög og reglur er varða vinnuvernd ásamt leiðbeiningum og fræðsluefni.