Þann 17.maí sl staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Suðurlands frá því í júní 2017 en Verkalýðsfélag Suðurlands hafði veitt umræddum starfsmönnum frá Ungverjalandi, aðstoð við útreikninga og kröfugerð á hendur atvinnurekanda. Ferðaþjónustufyrirtæki við Kirkjubæjarklaustur var dæmt til greiðslu ógreiddra launa, samanlagt um 4 milljónir króna, að auki var fyrirtækinu gert að greiða dráttarvexti og málskostnað.

Fólkið vann hjá fyrirtækinu í fimm mánuði, en við starfslok var fyrst gerður ráðningarsamningur og þeim afhentir launaseðlar sem voru í engu samræmi við unna tíma. Vlf.S tók málið til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu miðað við þau gögn sem fyrir lágu að háar fjárhæðir vantaði uppá greidd laun samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Eins og fyrr segir komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að launagreiðanda bæri að greiða kröfuna sem Hæstiréttur staðfesti síðan fyrr í vikunni.

Dómarnir hafa mikilvægt fordæmisgildi fyrir stöðu starfsmanna varðandi skráningu á vinnustundum. Með dómunum er skýrt að atvinnurekanda ber að tryggja sér sönnun, ýmist með yfirferð yfir tímaskráninga jafnóðum eða með stimpilklukku, ef hrekja á tímaskráningu starfsmanns. Í þessu máli hafi atvinnurekandi ekki sinnt þeirri skyldu sinni og voru tímaskráningar starfsmanna því lagðar til grundvallar og fallist á launakröfur þeirra.