Vinnustaðaeftirlit er samstarfsverkefni ASÍ og SA og sinnir Verkalýðsfélag Suðurlands eftirliti á sínu félagssvæði, sem nær frá Lómagnúp í austri að Þjórsá í vestri. Á félagssvæðinu eru sveitarfélögin Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Ásahreppur.

Tilgangur eftirlitsins er að tryggja að allir sitji við sama borð, m.a. með því að skapa eðlilegan samkeppnisgrundvöll og að tryggja að launafólk fái greidd rétt laun og önnur kjör samkvæmt kjarasamningum. Eftirlitið er unnið út frá lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum nr. 42/2010 en samkvæmt þeim er eftirlitsfulltrúum heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga er varða eftirlitið.  

Eftirlitið hefur nú verið endurvakið en það hafði legið niðri í dágóðan tíma, m.a. vegna covid-19 heimsfaraldursins. Áður hafði félagið verið í samstarfi um eftirlitið með öðrum félögum innan SGS en eftir að hlutirnir fóru að fara í eðlilegra form og ferðamönnum fjölgaði hratt þótti stjórn félagsins ástæða til að félagið sinnti virku eftirliti á sínu félagsvæði með eftirlitsfulltrúa á vegum þess. Var því ráðin starfsmaður í verkefnið fyrir sumarið.

Eftirlitið hefur farið vel af stað og voru fyrstu vinnustaðirnir heimsóttir þann 22.júní sl. og nú rúmum mánuði síðar hefur verið farið í eftirlit á 81 vinnustað. Ekki hefur verið vanþörf á að koma vinnustaðaheimsóknum af stað aftur því í kjölfar heimsóknanna kemur í ljós að í tæplega 60% tilvika er þörf á frekari eftirfylgni.

Eins og áður sagði er vinnustaðaeftirlit samstarfsverkefni SA og ASÍ og er það hagur allra að hlutirnir séu gerðir á réttan og sanngjarnan hátt. Það er því trú okkar að eftir næstu heimsóknir að fleiri séu komnir á rétt ról og færri heimsóknir þarfnist eftirfylgni.