Aðalfundur Verkalýðsfélags Suðurlands var haldinn miðvikudaginn 17.maí á hótel Stracta, Hellu. Í skýrslu stjórnar var farið yfir helstu verkefni og starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi. Þar kom fram að félagsfólki hafði fjölgað um 18% milli ára og alls greiddu 2552 einstaklingar til félagsins, sumir stoppa við í stuttan tíma en aðrir eru hér á félagssvæðinu til langtímabúsetu og er það ánægjulegt. Afgangur varð í öllum sjóðum félagsins og stendur eigið fé félagsins í 760 milljónum króna. Farið var yfir þá kjarasamninga sem gerðir voru á tímabilinu, málefni Starfsgreinasambandsins og fleira.

Gerðar voru reglugerðarbreytingar hjá Sjúkrasjóði og Orlofssjóði sem samþykktar voru af fundinum. Hækkun styrkja úr Sjúkrasjóði var einnig samþykkt. Einnig var lagt fram til kynningar breytingar á reglum Orlofssjóðs og starfsreglum félagsins.

Félagsfólk hefur verið duglegt að nýta sér þjónustu félagsins og ánægjulegt er að segja frá því að yfir 90% nýting var á eignum félagsins á síðasta ári.