Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt ferðaþjónustufyrirtæki á Kirkjubæjarklaustri til að greiða tveimur Ungverjum sem unnu hjá félaginu fyrir tveimur árum tæpar fjórar milljónir í ógreidd laun. Fólkið leitaði til Verkalýðsfélags Suðurlands og hafði uppi athugasemdir um launagreiðslur en í dómnum kemur meðal annars fram að það hafði kvartað undan því við vinnuveitanda sinn að fá ekkert frí.
Málin tvö voru rekin í sitthvoru lagi.
Annar starfsmaðurinn hóf störf í febrúar árið 2015 og hætti störfum í júlí sama ár en hinn mánuði seinna en hætti einnig í júlí.
Í dómunum tveimur röktu starfsmennirnir hvernig vinnutímanum var háttað. Þeir sögðust hafa unnið alla daga í apríl, maí og júní nema 17. júní, þjóðhátíðardeginum, því þá fengu Ungverjarnir frí.
Forsvarsmaður ferðaþjónustufyrirtækisins neitaði sök og sagði kröfur starfsmannanna tveggja bæði rangar og ósannaðar. Uppgjörið við þá hefði verið fullkomlega löglegt og tæmandi en síðan hefðu þeir birst með milligöngu Verkalýðsfélags Suðurlands og lögmannsstofu þess félags, til að hafa uppi fáránlegar kröfur.
Hann sagði málaferlin vera með eindæmum og þau væru borin uppi, með nokkru offorsi, af Verkalýðsfélaginu. Þetta væri einhvers konar prófmál um hversu langt yrði komist í kröfugerð.
Héraðsdómur nefnir í dómi sínum að þótt fólkið hafi ekki gert athugasemdir við uppgjör við starfslok liggi fyrir að það sé útlendingar og hafi því ekki rækilega þekkingu á reglum íslensks vinnuréttar. Það hafi því verið mikill aðstöðumunur á aðilum að þessu leyti. Þá hafi fólkið strax eftir starfslok óskað liðsinnis við að rétta hlut sinn.
Var ferðaþjónustufyrirtækinu því gert að greiða fólkinu ógreidd laun – annar átti inni tæpar tvær milljónir en hinn tæpar 1,8 milljónir.
Tekið af vef ruv.is