Verkalýðsfélag Suðurlands hefur sent erindi til allra sveitastjóra á félagssvæði stéttarfélagsins varðandi þá stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæði Vlf.S.
Eins og fram hefur komið þá hefur samninganefnd sveitarfélaganna samið við önnur sambönd og stéttarfélög um friðarskyldu til 15.september og ætlar að greiða þeim starfsmönnum m.v. fullt starf eingreiðslu (innborgun) að upphæð kr 105.000- þann 1.ágúst nk.
SGS og Efling fóru fram á að hið sama myndi gilda um þeirra félagsmenn. Því var alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitarfélaganna.
Eftirfarandi erindi hefur því verið sent í tölvupósti til allra sveitastjóra á félagssvæði Verkalýðsfélags Suðurlands:
Ágæti sveitastjóri
Erindi þetta varðar stöðu kjaramála félagsmanna Verkalýðsfélags Suðurlands sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæði stéttarfélagsins.
Verkalýðsfélag Suðurlands vill vekja athygli á þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæði þess.
Viðræður hafa staðið yfir við Samband íslenksra sveitarfélaga frá því í febrúar sl. og er búið að halda nokkra fundi. Mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands sem stéttarfélagið er aðili að ásamt Eflingu stéttarfélagi deilunni til ríkissáttasemjara þann 28.maí sl. Síðan þá er búið að halda tvo fundi, ekkert gengið og deilan í hörðum hnút, sérstaklega varðandi lífeyrismál. Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara verður ekki fyrr en 21.ágúst nk.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og félög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15.september nk. Af því tilefni hefur verið samið um innágreiðslu að upphæð kr. 105.000- sem miðaðst við 100% starf (hlutfallslega fyrir hlutastarf). Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir hönd Starfsgreinasambandsins og Eflingar um hvort slíkt hið sama standi okkar félagsmönnum til boða en formaður samninganefndar sveitarfélaganna hafnaði því alfarið á þeim forsendum að búið væri að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.
Samkvæmt þessu er því ljóst að félagsmenn innan Starfsgreinasambandsins og Eflingar verða þeir einu af starfsmönnum sveitarfélaganna sem ekki fá umrædda eingreiðslu. Það er von stéttarfélagsins að forráðamenn sveitarfélaganna á félagsvæði þess sjái hag sinn í því að hafa starfsmenn sína ánægða en mismunum sem þessi er sveitarfélögunum ekki til framdrátta og mun einungis efla baráttuandann í þeirri kjarabaráttu sem fram undan er.
Því fer Verkalýðsfélag Suðurlands fram á það að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu, félagsmönnum Vlf.S sem starfa eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1.ágúst nk. að upphæð kr. 105.000- m.v. 100% starf þann 1.júní sl. og hlutfallslega m.v. starfshlutfall.
Erindi þetta verður sent til allra sveitastjóra á félagssvæði Vlf.S, sem og þeim sem þykir málið varða.
með von um skjót og góð viðbrögð.
Athygli skal vakin á því að þau svör sem berast frá sveitarfélögunum og þeim sem málið varðar verða birt á heimasíðu félagsins.
f.h. Vlf.S
Guðrún Elín Pálsdóttir