Það er mikill munur á því að vera launamaður eða verktaki og mikilvægt að fólk átti sig á í hverju munurinn felst. Sem launamaður ertu með ráðningasamning og safnar réttindum á vinnumarkaði, atvinnurekandinn sér um að greiða af þér skatta og önnur launatengd gjöld og þú ert varinn af lögum sem launamaður. Ef þú hefur samið um að mæta á ákveðnum tíma á ákveðnum stað og ljúka vinnu á ákveðnum tíma, vinnur undir verkstjórn annarra þá ert þú starfsmaður ekki verktaki.

VERKTAKI

Þú ert verktaki ef þú gerir samning um einstaka verk sem þú ræður hver vinnur og hvernig. Samið er um greiðslu fyrir verkefnið en þú átt atvinnutækin sjálf/ur og getur ráðið aðra til að sinna verkinu. Þú ert fjárhagslega ábyrg/ur fyrir verkefninu sjálf/ur. Ef þú ert verktaki ertu í raun að selja þjónustu og þú átt í viðskiptum án þess að njóta réttinda sem launamaður eða ávinna þér slíkra réttinda. Því miður er þessu stundum ruglað saman og launamönnum boðið uppá að vera verktakar.

GERVIVERKTAKA

Ein leið fyrirtækja til að lækka launakostnað er að ráða starfsmann sem verktaka, m.ö.o er starfsmaður orðinn gerviverktaki eins og kallað er. Gerviverktaka er þegar launamaður tekur á sig skyldu verktaka í sinni daglegu vinnu, þ.e. hann mætir til vinnu á ákveðnum tíma á ákveðnum stað, er undir verkstjórn verkkaupa, notar alla aðstöðu, verkfæri og tæki verkkaupa. Hann er því raunverulega í vinnu hjá verkkaupa nema hann er ekki á launaskrá.

Sem „verktaki“ eða eins og sagt er frá í þessu tilviki er gerviverktakinn sjálfur ábyrgur á greiðslu tryggingagjalds og annarra opinberra gjalda – hann ber einnig sjálfur ábyrgð á mótframlagi í lífeyrissjóð. Hann þarf sjálfur að sjá um að tryggingar séu í lagi og hann hefur engan uppsagnarfrest, engan rétt til launa í veikindum, fær ekki greidd orlofslaun né nýtur neinna þeirra réttinda sem almennir kjarasamningar tryggja launafólki. Verði verkkaupi gjaldþrota eru kröfur verktaka almennar kröfur – en ekki forgangskröfur eins og laun.