Nú fer senn að líða að skólaslitum í grunnskólum landsins. Yfir sumartímann hafa mörg börn og ungmenni einhverskonar atvinnu. Sem starfsmaður í íþrótta- og æskulýðsstarfi til margra ára og áhugamaður um verkalýðsmál er þetta mér mikið hjartans mál, og þykir vinnutími ungmenna á Íslandi mikið umhugsunarefni. Dæmi eru um að heilu fyrirtækin geri út á það að vera með ungmenni í vinnu sem einungis þarf að greiða hlutakaup að sökum aldurs. Fyrir utan hið augljósa óréttlæti og þá órökstuddu mismunun sem fellst í hlutakaupi þá þykir mér fátt sorglegra en þegar að börn og ungmenni forfallast úr æskulýðsstarfi vegna vinnu, sem er því miður allt of algengt. Börn eru í fullri vinnu við það að mótast og þroskast og er skipulagt æskulýðsstarf mikilvægur hluti í þroskaferli þeirra.

Á öllum málum eru tvær hliðar, og margir sem telja börn bara hafa gott að því að vinna. Þau hafa vissulega gott að því að vinna, í hófi enda eru þau börn. Bera margir fyrir sér að börnin vilji bara vinna, en börn biðja oft á tíðum ýmislegt misgáfulegt, er það þá á ábyrgð okkar, fullorðna fólksins, að leiðbeina þeim og hjálpa.

Í flestum eða öllum sveitarfélögum eru til að mynda starfandi vinnuskólar. Eru þeir frábært atvinnutækifæri fyrir börn og ungmenni. Þar gefst ungmennum kostur á öruggri atvinnu, gefst kostur á að taka þátt í skipulögðu æskulýðsstarfi, og sameina vinnu, leik og nám, sem vinnuskólinn á að vera. Vissulega geta börn í mörgum tilfellum fengið betur launuð störf, oft í verslunum eða öðrum rekstri, en þá er rétt að spyrja sig hvort það sé þess virði? Hvort það skapi ekki óraunhæfa mynd á launum og tekjum, hvort það sé of mikil vinna fyrir barnið, hvort vinnan komi til með að skerða tækifæri þeirra til iðkunar æskulýðsstarfs. Þarna þurfa atvinnurekendur og foreldrar að sýna ábyrgð.

Það er ekki úr vegi að minnast hér á nokkra punkta úr reglugerð um vinnu barna og unglina, sem virðast oft gleymast:

  • Vinnan skal fara fram undir viðeigandi eftirliti af einstaklingi sem orðinn er 18 ára og hefur nægilega innsýn í eðli vinnunnar.
  • Atvinnurekanda ber að kynna foreldrum barna eða forráðamönnum hugsanlega áhættu og allar ráðstafanir sem eru gerðar til að tryggja öryggi þeirra og heilbrigði.
  • Ungmenni mega ekki handleika þungar byrðar sem til lengri eða skemmri tíma litið geta skaðað heilbrigði þeirra og þroska. Forðast skal ónauðsynlega líkamsáreynslu ungmenna við störf, svo og rangar vinnustellingar eða hreyfingar, sbr. viðauka 3, liði 1 a og b.
  • Ekki má ráða ungmenni til vinnu þar sem líkamlegum eða andlegum þroska þeirra er sérstök hætta búin nema þau starfi með fullorðnum eða þeim sem náð hefur 18 ára aldri. Þetta á sérstaklega við um störf í söluturnum, myndbandaleigum, skyndibitastöðum, bensínstöðvum og á sambærilegum stöðum.
  • Vinnutími unglinga má ekki fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku. Þegar daglegur vinnutími er að jafnaði 8 klst. skal hann vera samfelldur ef kostur er.
  • Ef daglegur vinnutími er lengri en 4 klukkustundir á unglingur rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.
  • Unglingar mega ekki vinna frá kl. 22 til kl. 6 nema annað sé sérstaklega tekið fram, þó aldrei milli kl. 24 og kl. 4.
  • Unglingar skulu fá minnst 12 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring.
  • Á hverju sjö daga tímabili skulu unglingar fá minnst tveggja daga hvíld sem skal vera samfelld ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.
  • Atvinnurekandi skal við ráðningu barna, sem eru undir 15 ára aldri eða þeirra sem eru í skyldunámi, kynna foreldrum eða lögráðamanni ráðningarkjör þar með talið lengd vinnutíma sem og tíðni óhappa og slysa, sem hugsanlega tengjast starfinu, og þær ráðstafanir, sem gerðar eru til að auka öryggi og heilbrigði barna við störf, svo og áhættumat skv. 5. og 6. gr.

Leyfum börnum að vinna, en gerum það skynsamlega. Leyfum börnum að vinna, en skerðum ekki tækifæri þeirra til að taka þátt í æskulýðsstarfi. Leyfum börnum að fá tíma til að hitta vini sína og taka út félagslegan þroska. Leyfum börnum að eiga samverustund með fjölskyldu sinni. Leyfum börnum að vera börn.

Ástþór Jón Ragnheiðarson

Höfundur starfar sem frjálsíþróttaþjálfari og er fulltrúi VLFS í stjórn ASÍ-UNG.