Miðstjórn Alþýðusambands Íslands tók þá ákvörðun á fundi sínum 18. ágúst að aflýsa málefnahluta þings sambandsins sem fara átti fram 8. og 9. september næstkomandi vegna samkomutakmarkana og fjölda smita í samfélaginu.
44. þing Alþýðusambands Íslands var sett rafrænt 21. október sl. en vegna samkomutakmarkana sökum heimsfaraldurs var málefnavinnu frestað til framhaldsþings. Til stóð að halda framhaldsþingið í maí sl. en aftur var það ekki mögulegt vegna samkomutakmarkana og var þinginu enn frestað til 8.–9. september nk. Enn eru í gildi samkomutakmarkanir og því ekki hægt að halda framhaldsþingið með venjubundnu sniði og þeirri nálægð og samvinnu sem málefnaþing krefst. Þótt notast yrði við sóttvarnahólf og ítrustu sóttvarnaráðstafna gætt, væri eftir sem áður umtalsverð hætta á að þingfulltrúar gætu þurft að sæta sóttkví eftir þingið og einnig mögulegt að sýkingar breiddust út. Þá yrði félagslíf í kringum þingið af mjög skornum skammti.
Af þessum sökum telur miðstjórn ASÍ ekki forsvaranlegt að halda þingstörfum til streitu og ákvað því á fundi sínum 18. ágúst að frekari þingstörfum verði aflýst og þinginu slitið.