Áhyggjur af stöðu ferðaþjónustunnar

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) haldinn á Húsavík 3.-4. júní 2013 lýsir áhyggjum af stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu í upphafi sumarvertíðarinnar. Af reynslu undanfarinna ára er töluvert um kjarasamningsbrot í greininni og undanskot frá sköttum og skyldum. Formannafundur Starfsgreinasambandsins skorar á atvinnurekendur, starfsfólk og stjórnvöld að gæta þess að farið sé eftir leikreglum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sér og láta vita ef misbrestur er á.

Greinargerð:
Ferðaþjónustan er ein af hornsteinum íslensks atvinnulífs og sífellt fleiri félagsmenn innan aðildarfélaga SGS vinna í greininni. Það er samfélagslega mikilvægt að greinin sé farsæl og innan hennar sé farið að lögum og reglum. Starfsfólk á að vera tryggt í störfum sínum og greinin skal skila eðlilegum sköttum til þjóðarbúsins. Meðal algengra mála sem koma inn á borð stéttarfélaganna í tengslum við ferðamannavertíðina eru:

  • Greiðsla jafnaðarkaups, slíkt er ekki til í kjarasamningum heldur skal greiða dagvinnu og yfirvinnu eða vaktaálag ef um vaktavinnu er að ræða.
  • Að vaktir hafi ekki skilgreint upphaf og endi, starfsfólk viti  hvenær vinnutíma lýkur. Þess skal gætt að skipulag vakta sé kynnt fyrir starfsfólki samkvæmt reglum um vaktskrá. Vaktavinna sé tekin fram í ráðningasamningi og vakt skuli unnin í samfelldri heild.
  • Að ungt fólk sé á lægra kaupi en samið er um en þeir sem verða 16 og 17 ára á árinu eiga strax að fá greitt miðað við 16 og 17 ára taxta.
  • Að ekki séu greiddir skattar og önnur opinber gjöld af starfsfólki og þar með brotin landslög.

Launafólk sem telur á sér brotið er hvatt til að hafa samband við stéttarfélagið á viðkomandi stað en upplýsingar um þau má nálgast á vef Starfsgreinasambandsins www.sgs.is.  Starfsgreinasambandið bindur vonir við áframhaldandi samstarf Ríkisskattstjóra, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem hefur það markmið að uppræta svarta atvinnustarfsemi.