Afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslu um nýjan samning við ríkið
Ríkisstarfsmenn í 15 aðildarfélögum SGS hafa samþykkt kjarasamninginn sem undirritaður var 7. október síðastliðinn í sameiginlegri rafrænni atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan var mjög afgerandi – já sögðu 81,8% en nei sögðu 16,3% (auðir seðlar 1,9%). Alls voru 1.012 félagar á kjörskrá og greiddu 258 þeirra atkvæði (25,5% kjörsókn). Starfsgreinsambandið undirritaði kjarasamninginn í umboði eftirtalinna félaga: AFL – starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn stéttarfélag.
Samningurinn er á svipuðum nótum og samið var um á almennum markaði í vor og gildir hann frá 1. maí síðastliðnum. Hækkun frá 1. maí er 25.000 krónur. Þann 1. júní árið 2016 hækka laun um 5,5%, að lágmarki 15.000 krónur auk breytinga á launatöflu. Ári síðar, eða 1. júní 2017, hækka laun um 4,5% og 1. júní 2018 hækka laun um 3%. Samningurinn gildir til 31. mars árið 2019 og kemur þá til sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2019 uppá 45.000 krónur fyrir starfsfólk í fullu starfi og hlutfallslega fyrir starfsfólk í hlutastarfi. Lágmarkslaun eru hækkuð til samræmis við það sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði og verða 300.000 krónur frá 1. júní 2018 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun. Framlag í þróunar- og símenntunarsjóði verður hækkað í 0,82% auk þess sem aukið framlag verður sett í stofnanasamninga samkvæmt sérstakri bókun.
Samninginn í heild sinni má nálgast hér.
Tekið af síðu SGS