A4 oftast með lægsta verðið á nýjum skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum þriðjudaginn 18.ágúst. Farið var í fimm bókabúðir og skoðað verð á 37 algengum nýjum námsbókum og borið saman innkaups- og útsöluverð á 18 bókum á tveimur skiptibókamörkuðum.

Oftast um 10-30% verðmunur á nýjum skólabókum

Af nýjum skólabókum átti A4 Skeifunni flesta titlana eða 35 af 37 en Penninn-Eymundsson Kringlunni og Bókabúðin IÐNÚ áttu 33 titla. Oftast má sjá 10-30% verðmun á hæsta og lægsta verði á milli verslananna. A4 var oftast með lægsta verðið að þessu sinni, 21 titill af 37 voru ódýrastir hjá þeim, næst kom Penninn-Eymundsson með lægsta verðið á 9 titlum. Bókabúðin IÐNÚ var oftast með hæsta verðið eða á 15 titlum af 37 og Bóksala Stúdenta í 10 tilvikum.

Mestur verðmunur í könnuninni var á bókinni “Þýska fyrir þig: vinnubók“, en hún var dýrust á 3.530 kr. hjá Bókabúðinni IÐNÚ en ódýrust á 2.269 kr. hjá A4 sem er 1.261 kr. verðmunur eða 56%. Minnstur verðmunur að þessu sinni var 1% á bókinni “Grafísk miðlun – Forvinnsla, prentun, frágangur“, en bókin var dýrust á 6.275 kr. hjá Bókabúðinni IÐNÚ en ódýrust á 6.199 kr. hjá Pennanum-Eymundsson.

Af öðrum kennslubókum má nefna að bókin „Jarðargæði“ var dýrust á 6.995 kr. hjá Bóksölu Stúdenta en ódýrust á 5.710 kr. hjá Bókabúðinni IÐNÚ sem er 23% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á bókinni „Bókfærsla 1“ sem var dýrust á 4.660 kr. hjá Bóksölu Stúdenta en ódýrust á 3.879 kr. hjá Pennanum-Eymundsson sem er 21% verðmunur. Að lokum má nefna félagsfræðibókina „Kemur félagsfræðin mér við?“ sem var dýrust á 5.999 kr. hjá Pennanum-Eymundsson en ódýrust á 4.255 kr. hjá Bóksölu Stúdenta sem er 41% verðmunur.

Mikill munur á verði skiptibókamarkaðanna

Af þeim tveimur bókaverslunum sem starfrækja einnig skiptibókamarkað, var A4 oftar með lægsta útsöluverðið á notuðum skólabókum sem skoðaðar voru eða á 11 titlum af 18. Penninn-Eymundsson var oftar með hæsta útsöluverðið eða á 11 titlum. Álagning beggja skiptibókamarkaðanna er um og yfir 50%.

Sjá nánari niðurstöður í töflu

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.

Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Háskólatorgi, Pennanum-Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni og A4 Skeifunni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Einnig má benda neytendum á að bókabúðirnar gætu verið með staðgreiðsluafslátt og jafnvel afslætti til meðlima.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af síðu ASÍ