Á árinu 2023 hefur Verkalýðsfélag Suðurlands innheimt 43,4 milljónir króna vegna vangoldinna launa fyrir hönd 59 félagsmanna á félagssvæði félagsins en um er að ræða launakröfur eingöngu vegna starfa í ferðaþjónustu. Að meðaltali var hver þessara félagsmanna hlunnfarinn um 413.þúsund krónur en hæsta einstaka launakrafan nam tæpum 5 milljónum. Allir þessir starfsmenn eru af erlendum uppruna.

Launaþjófnaður birtist í ýmsum myndum: starfsmenn fá ekki greidda yfirvinnu, laun eru greidd undir taxta, ekki eru greidd rétt vaktaálög, desember- og orlofsuppbætur vantar svo eitthvað sé nefnt.

Stéttarfélagið reiknar launakröfur út frá þeim gögnum sem fyrir liggja í hverju máli fyrir sig og er því í sumum tilfellum jafnvel um að ræða að starfsmenn hafi upphaflega átt meira inni en launakrafan hljóðar upp á. Þessi upptalning á einungis við um mál þar sem þurft hefur að senda formlega kröfu, en hér eru ótalin þau tilfelli þar sem málin eru leiðrétt með samtali og atvinnurekandi gerir úrbætur áður en til formlegrar launakröfu kemur.