Eftir að vinnustaðareftirlit félagsins var endurvakið eftir heimsfaraldurinn hefur málum á borðum félagsins fjölgað verulega. Í sumar og nú sem stendur hafa 31 félagsmaður óskað eftir aðstoð vegna gruns um að ekki sé allt með felldu og vegna gruns um hreinan launaþjófnað. Misjafnlega gengur að ná sáttum í málum sem þessum og eru mörg þeirra enn í vinnslu en sum þeirra hafa hlotið viðunandi niðurstöðu. Þær fjárhæðir sem um ræðir ná frá nokkrum tugum þúsunda upp í milljónir. Í grófustu tilfellunum hefur munað allt að 900 þúsund krónum á þeim launakjörum sem starfsfólk átti rétt á samkvæmt kjarasamningum og því sem þau fengu svo raunverulega greitt fyrir mánuðinn, einnig eru dæmi um að starfsfólk sé látið vinna á bilinu 300 – 400 stundir á mánuði.
Þessi 31 tilfelli eru vegna starfsmanna í ferðaþjónustu og má því spyrja hvort að þetta sé toppurinn á ísjakanum, en stéttarfélagið hefur aðeins til úrvinnslu þau mál sem koma inn á borð félagsins eða koma upp í kjölfar vinnustaðaeftirlits. Þá eru dæmi um að fólk leiti ekki réttar síns vegna launaþjófnaðar af ótta við viðbrögð atvinnurekenda, ótta við að missa vinnuna og ótta við að missa húsnæði sem það hefur á vegum atvinnurekanda og er tengt ráðningu þeirra.
Launaþjófnaður hefur ýmsar birtingarmyndir en er í grunninn hver sú aðgerð sem er þess valdandi að starfsfólk hlýtur lakari kjör en samið hefur verið um í kjarasamningum. Dæmi um launaþjófnað getur verið á eftirfarandi hátt: kauptaxtar eru undir lágmarkskjörum, álag vegna vaktavinnu ekki greitt, ekki er greidd yfirvinna þegar við á, hvíldartímar eru skertir og frítökuréttur ekki greiddur osfrv. Einnig má nefna sjálfboðaliðastörfin sem unnin eru í efnahagslegri starfsemi þar sem kjarasamningar gilda um þau störf en það er ekkert annað en einbeittur brotavilji og grófustu dæmin um brot á kjarasamningum.
Það er ekki við það unað að rekstur ferðaþjónustufyrirtækis byggist upp á launaþjófnaði enda kastar það rýrð á þá sem hafa hlutina í lagi, skaðar orðspor þeirra sem og samkeppnisgrundvöll. Ferðaþjónustan er orðin okkar helsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein og er gjarnan hampað í fjölmiðlum, það er þó enginn glansbragur yfir greininni fyrir það starfsfólk sem verður fyrir barðinu á fyrrgreindum brotum. Auk þess að starfsfólkið fær ekki það sem þeim ber þá er um leið svikið undan skatti, lífeyrisréttindi tapast, sveitarfélögin og samfélagið allt tapar.
Mikið hefur verið rætt um undanfarið að setja verði viðurlög við þessum brotum, hreyfingin hefur talað fyrir og barist fyrir því að slíkt sé gert í mörg ár en ekki hefur verið vilji til þess af hendi stjórnvalda. Það þarf engan sérfræðing til að sjá að þjófnaður er þjófnaður sama hvort það eru laun eða aðrir fjármunir og fyrir það verða að vera afleiðingar. Það er því nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til að tryggja að hlutir sem hér hafa verið nefndir verði stoppaðir.
Því spyrjum við: er skemmdu eplunum í körfunni að fjölga?