Í dag 1.desember 2021 eru 20 ár frá stofnun félagsins en það var stofnað eftir nokkkurn undirbúning þriggja félaga á svæðinu. Stofnendur voru félagsmenn Verkalýðsfélags Rangæings, Verkalýðsfélagsins Víkings og Verkalýðsfélagsins Samherja. Stofnfundurinn var haldinn í Fossbúð, Austur-Landeyjum og mættu þar gestir frá Alþýðusambandi Íslands og Starfsgreinasambandi Íslands.

Félagssvæði hið nýja félags náði þá frá Þjórsá í vestri að Lómagnúp í austri og er því félagssvæðið landfræðilega mjög stórt. Í upphafi voru um 528 greiðandi félagsmenn í félaginu en félagafjöldi hækkað hratt á þessum tíma og voru þegar mest lét 2294 greiðandi félagsmenn á ársgrundvelli.

Eitt af helstu verkefnum félagsins er að standa vörð um hagsmuni og réttindi sem þegar hefur verið samið um í kjarasamningum sem og að berjast fyrir betri kjörum. Félagið veitir einnig ýmsa aðra þjónustu ásamt lögfræðilegri ráðgjöf er varðar ágreiningsmál gagnvart atvinnurekanda sínum.

Eins og í upphafi þá hafa stefnumálin ekki breyst, það er eins og áður segir að standa vörð um réttindamál af ýmsum toga, hagsmuni og velferð okkar fólks. Ekki má sofna á verðinum því stöðugt er sótt að hreyfingunni um að eftirláta hina ýmsu sigra sem náðst hafa á liðnum áratugum en ekki síður þarf að vera vakandi til að sækja fram og vinna enn fleiri sigra.

Til hamingju með daginn kæru félagar.