Samið var um sérstakan Félagsmannasjóð í síðasta kjarasamningi SGS/VLFS við Samband íslenskra sveitarfélaga og skyldu starfsmenn sem vinna eftir þeim samningi fá greiðslur úr sjóðnum einu sinni á ári. Fyrstu tvö árin hélt SGS utan um sjóðinn og sá um að greiða út til félagsmanna en á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að stéttarfélögin innan SGS myndu taka við sjóðnum og sjá um að greiða úr honum til sinna félagsmanna. Greitt er í sjóðinn af sveitarfélögum og stofnunum innan þess 1,5% af launum hvers starfsmanns. Stéttarfélagið er í raun eingöngu milliaðili sem sér um vörslu sjóðsins þar til greitt er úr honum skv. kjarasamningi þann 1.febrúar ár hvert.

Í dag greiddi VLFS í fyrsta sinn úr sjóðnum til sinna félagsmanna vegna ársins 2022 og námu greiðslur úr sjóðnum tæpum 16 milljónum til 343 starfsmanna. Forsenda þess að félagið geti greitt úr sjóðnum er að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá félaginu, þannig ef einhver hefur ekki fengið greitt en telur sig eiga inni hjá sjóðnum þá þarf viðkomandi að hafa samband við stéttarfélagið. Rétt er að geta að stéttarfélagið hefur ekki tekið staðgreiðslu af upphæðinni en greiðsla þessi fer inná skattaskýrslu næsta árs sem þá reiknar staðgreiðslu hjá hverjum og einum.

Við munum senda kvittun fyrir greiðslunni í tölvupósti til þeirra sem við höfum upplýsingar um. Ef þið óskið eftir kvittun en hafið ekki fengið þá endilega hafið samband við okkur á skrifstofunni.

Þau sveitarfélög og stofnanir sem um ræðir eru eftirtalin: Byggðasamlagið Oddi, Hjallatún, Klausturhólar, Kirkjuhvoll, Lundur, Mýrdalshreppur, Rangárþing Eystra, Rangárþing Ytra, Skaftárhreppur, Sorpstöð Rangárvallasýslu, Suðurlandsvegur 1-3 og Tónlistarskóli Rangæinga.