Viðræðum við sveitarfélögin slitið

Viðræðum við Samband Íslenskra sveitarfélaga var slitið í vikunni og deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið yfir í haust en lítið hefur miðað í launamálum. Það vantar sameiginlegan skilning á þeim ramma sem unnið er út frá samkvæmt SALEK-samkomulaginu og að mati samninganefndar Starfsgreinasambandsins skortir samningsvilja hjá samninganefnd sveitarfélaganna.

Önnur atriði en launamálin hafa verið útkljáð að mestu og því stóðu vonir lengi til þess að hægt væri að klára samningana fljótt og örugglega þegar niðurstaðan í launamálin fengist. Þegar komið var að leiðarenda varðandi launaliðinn var það sameiginlegt mat þeirra sem voru í samfloti í samningunum, þ.e. SGS, Flóabandalagsins og opinberu félaganna, að nauðsynlegt væri að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Vonast er til að ríkissáttasemjari boði til fundar í deilunni strax eftir helgi og hægt sé að ná samningum undir verkstjórn hennar.

Tekið af síðu SGS