• Mán - Fim 9-16 Fös 9-15
  • 487-5000
  • vs@vlfs.is
  • Suðurlandsvegi 1-3, 3 hæð, 850 Hella

„GRÆNI PUNKTURINN“ ALLT AÐ HELMINGI DÝRARI EN Í BÓNUS OG PRÍS.

Mikill fjöldi vara sem merktar eru „á lágvöruverði“ í Kjörbúðinni eru í raun þriðjungi til helmingi dýrari en í Bónus eða Prís samkvæmt athugun verðlagseftirlitsins. Samkvæmt heimasíðu Kjörbúðarinnar á grænn punktur sem settur er á verðmiða í verslunum Kjörbúðarinnar að tryggja „varan sé á sambærilegu verði og í lágvöruverslun.“  Athugað var þann fyrsta nóvember hvort grænir punktar væru trygging fyrir lágu verði. Verð á miðum með grænum punkti voru borin saman við verð í öðrum verslunum. 

Verð á grænpunktavörum allt að helmingi dýrari 

Í Bónus má finna 230 af þeim vörum sem merktar eru með grænum punktum. Af þeim voru 80 meira en 10% dýrari í Kjörbúðinni og 33 meira en fjórðungi dýrari. Dæmi er um að verð sé allt að 47% hærra, eins og á MS óskajógúrt með melónukokteil. Verðið þar er nær verðinu í 10-11 en í Bónus. Ísey skyr með bláberja- og hindberjabragði, 500gr, var 38% dýrara í Kjörbúðinni en í Bónus og BonAqua, 500ml kostaði 37% meira en í Bónus. 

Einnig var athugað hvernig verð í Kjörbúðinni stóðst samanburð við verslunina Prís, þar sem um 160 af grænpunktavörunum fundust. Af þeim voru 89 meira en 10% dýrari. Þrjár Pick Nick samlokur voru 54% dýrari. Pakki af 1944 heimiliskjötsúpu, 1kg, var seldur á 2.399kr í Kjörbúðinni með grænum punkti en var til ódýrari í Hagkaup, Heimkaupum, Nettó, Krónunni, Fjarðarkaupum og Prís. Í Prís kostaði pakkinn 1.585kr og var því 51% dýrari í Kjörbúðinni. 

Kjörbúðin almennt 30% dýrari en ódýrasta verslunin 

Síðustu þrjá mánuði hefur Kjörbúðin verið um 30% frá lægsta verði að meðaltali. Að meðaltali eru vörur merktar með grænum punkti nær lægsta verði en það, eða um 16% dýrari en í Prís og 11% dýrari en í Bónus að meðaltali. Hins vegar er talsverð breidd í verðbilinu, eins og rakið var að ofan. Sjá má lista yfir allar samanburðarvörur neðar í fréttinni. 

Grænn punktur ekki trygging fyrir lágu verði 

Ljóst er að grænir punktar veita ekki tryggingu fyrir lágu verði. Verðlagseftirlitið hvetur neytendur til að nota smáforrit verðlagseftirlitsins, Nappið, og heimasíðuna verdlagseftirlit.is. Hægt er að fletta upp verði á vörum í hvoru tveggja. 

Um könnunina 

Verð voru athuguð í Kjörbúðinni föstudaginn 1. nóvember, í Prís 2. nóvember og í Bónus 2. og 3. nóvember. Skoðuð voru verð á 800 vörum merktum með grænum punkti og borin saman við yfir 3.500 vörur í Bónus og yfir 2.500 vörur í Prís. 

Deildu:

Fylgdu okkur

Þú getur fundið okkur á Facebook og Instagram
Skrifstofa
  • Suðurlandsvegi 1-3, 3 hæð, Hella
  • Mán - Fim 9-16 Fös 9-16
Hafðu samband
  • 487-5000
  • vs@vlfs.is
Fylgdu okkur
© 2024 Verkalýðsfélag Suðurlands. Allur réttur áskilinn.