• Mán - Fim 9-16 Fös 9-15
  • 487-5000
  • vs@vlfs.is
  • Suðurlandsvegi 1-3, 3 hæð, 850 Hella

VIÐSJÁRVERÐ ÞRÓUN Í LEIKSKÓLAMÁLUM

Á fundi formanna SGS þann 10. desember síðastliðinn var m.a. umræða um þá þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Í tilefni þess sendi fundurinn frá sér eftirfarandi ályktun.

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar við þeirri þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Einnig hefur svokölluðum skráningardögum fjölgað, þ.e.a.s. dögum sem ekki eru innifaldir í föstu mánaðargjaldi og greiða þarf sérstaklega fyrir.

Þeir foreldrar, sem vinnu sinnar vegna hafa ekki tök á því að stytta vistunartíma barna sinna, greiða eftir breytingarnar mun hærra gjald en áður svo nemur tugum prósenta. Bitnar þetta helst á tekjulágum foreldrum með lítið stuðningsnet og lítinn sveigjanleika í starfi.

Þótt sveigjanleiki hafi aukist hjá þeim hluta vinnumarkaðarins sem nýtur styttingu vinnuvikunnar, hefur stærstur hluti félagsmanna aðildarfélaga SGS alls enga styttingu fengið – vinnur ennþá 40 stunda vinnuviku og hefur ekki tök á að vinna að heiman hluta úr degi eða sækja börn fyrr á leikskólann. Þessi staðreynd virðist hafa farið fram hjá þeim sem stýra leikskólamálum.

Þangað til stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd hjá vinnumarkaðinum í heild sinni er þessi viðsjárverða þróun algerlega ótímabær. Hún mun draga úr ráðstöfunartekjum tekjulægstu heimilanna, auka ójöfnuð, grafa undan atvinnuþátttöku og er dýrkeypt bakslag í jafnréttisbaráttunni sem þó á enn langt í land.

Formannafundur Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að sveitarfélög leiti annarra leiða til að leysa mönnunarvanda leikskólanna, þessi leið er of dýru verði keypt.

Ályktun um leikskólamál (PDF)

Deildu:

Fylgdu okkur

Þú getur fundið okkur á Facebook og Instagram
Skrifstofa
  • Suðurlandsvegi 1-3, 3 hæð, Hella
  • Mán - Fim 9-16 Fös 9-16
Hafðu samband
  • 487-5000
  • vs@vlfs.is
Fylgdu okkur
© 2024 Verkalýðsfélag Suðurlands. Allur réttur áskilinn.