Tíunda þing Starfsgreinasambands Íslands var sett í Hofi á Akureyri 8. október. Þing SGS hefur æðsta vald í málefnum sambandsins og eru þar lagðar línur í kjaramálum og starfsemi sambandsins til næstu tveggja ára og þýðingarmikil mál tekin til umfjöllunar.
Aðildarfélög sambandsins skipa þingfulltrúa í réttu hlutfalli við fjölda félagsmanna, en alls eiga 135 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum sambandsins rétt til að sitja hvert þing.
Við setningu þings söng Kvennakór Akureyrar nokkur lög undir stjórn Valmars Väljaots. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, gat því miður ekki verið viðstödd en ávarpaði þingfulltrúa engu að síður í gegnum myndband. Þá tók til máls forseti ASÍ, Finnbjörn Hermannsson, og hvatti þingfulltrúa til dáða og samstöðu.
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, flutti ræðu áður en hann setti þing. Hann kom víða við í sínu máli og sagði m.a.: “Við höfum í áranna rás verið leiðandi afl í kjarasamningsviðræðum. Við höfum sýnt ábyrgð þegar samningar þurfa að nást til að tryggja stöðugleika, en við höfum aldrei hvikað frá meginmarkmiðinu: að bæta kjörin og verja réttindi launafólks. Við vitum að launafólk lifir ekki á fögrum orðum eða loforðum um framtíð – það lifir á kjörum sínum, réttindum og öryggi.”
Ræðu Vilhjálms má lesa í heild sinni hér
Áður en þingi var frestað til morguns færðu Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og þingforseti, og Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, Ástu Andrésdóttur blómvönd sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf innan verkalýðshreyfingarinnar síðastliðin 30 ár.